Mig grunar sterklega að ég sé ekki ein í heiminum sem hefur lent í því að standa á vigtinni alveg á gati við að sjá að hún hefur ekki færst til um gramm, þrátt fyrir að ég hafi gert allt "rétt". Ekki borðað of margar, né of fáar hitaeiningar, passað að stunda bæði þol og vöðvaæfingar, passað að hvíla inn á milli, vigtað allt og kannað hitaeiningafjölda í ókunnum matvælum, ekki verið stressuð,beðið róleg, gert allt rólega, haldið bjartsýnunni, gert allt rétt. Og allt fyrir ekki.
Ég hef oft velt fyrir mér hvað sé að mér. Hversvegna líkami minn virðist streitast svona á móti tilraunum mínum til að gera hann að heilbrigða musterinu sem hann ætti að vera. Sem betur fer hafa nokkrar rannsóknir sýnt að ég er ekki að gera mér þetta upp. Líkaminn reynir að komast aftur í fituástand. Við að fara í megrun (eða lífstíl, það virtist ekki skipta máli hvort fólk léttist hægt eða hratt) byrjar líkaminn að offramleiða hormónið sem stjórnar hungurtilfinningu og bælir niður hormónið sem stjórnar seddunni. Að auki þá hægir líkaminn á brennslu. Og þrátt fyrir tilraunir til að koma brennslu aftur í sama lag og fyrir megrun (eða lífstíl) þá er það nánast ómögulegt. Þannig ætti ég skv BMR að geta neytt 2600 hitaeininga með þeirri æfingu sem ég stunda til að viðhalda núverandi þyngd. Þegar ég borða 2600 hitaeiningar á dag þyngist ég um 2 kíló á viku. Ég er búin að margprófa þetta. Ég get í mesta lagi fengið 1800 hitaeingar yfir daginn. Og það breytist ekki.
Ég er dauðfegin að komast að þessu. Hugsið ykkur þetta eins og að vera með stanslausan magaverk. Og að ganga lækna á milli sem allir segja manni að maður sé að ímynda sér þetta. Að í hvert sinn sem maður segist vera með verkinn þá sakar fólk mann um að hafa gert eitthvað sjálfur sem valdi verknum. Að maður fari smá saman að trúa því að maður sé að gera sér þetta upp. Þangað til að einn daginn finni maður lækni sem sjúkdómsgreinir mann. Segir manni að maður sé með stombón trompón syndróm. Að það sé til nafn á ástandið. Og maður verður svo glaður við það eitt að maður hafi ekki verið að ímynda sér þetta að manni er alveg sama þegar læknirinn svo segir að þetta sé ólæknanlegt en hægt að stjórna með hreyfingu og mataræði.
Mér líður þannig núna. Eins og ég sé búin að fá að vita hvað er að og nú geti ég tekist á við það á réttan hátt. Þetta er vinna og þannig verður það. En nú get ég allavega hætt að klóra mér í hausnum þegar ég geri allt rétt samkvæmt kenningunum og ekkert virkar. Nú get ég alfarið snúið mér að þvi að treysta eigin reynslu og vitneskju.
Ég legg eindregið til að greinin sé lesin eins og hún birtist í NY TIMES. Hún er löng en alveg hrikaleg áhugaverð fyrir okkur sem erum að spekúlera í spiki.
2 ummæli:
Ótrúlega áhugaverð grein. Ég las hana alla og fékk nokkur "það hlaut eitthvað að vera" moment. En auðvitað gefst maður ekkert upp fyrir fitupúkanum, það er bara búið að sýna manni að maður þurfi í raun að hafa meira fyrir þessu en Gunna sem var aldrei feit! :)
Ég er búin að lesa aftur og aftur og finn alltaf eitthvað sem ég hugsa með mér; "já, þetta grunaði mig!"
Skrifa ummæli