Þetta er búin að vera góð helgi. Ég fór á pöbbinn með vinnufélögunum eftir vinnu á föstudagskvöldið og fékk mér einn bitter. Veðrið var ljómandi gott á miðað við hvernig hefur verið að undanförnu og ég fann hvernig gamalt stuðgen sem ég hef erft úr báðum ættum tók sig skyndilega upp. Ég hefði getað setið lengi og drukkið og spjallað og hefði svo vel getað hugsað mér að enda á hverfispöbbnum að hlusta á The New Foos, Foo Fighters tribút bandið. En það er nú svo með stuðgenið í mér eins og súkkulaðigenið, ég hef litla stjórn á þvi þegar ég byrja almennilega. Þannig að það er betra fyrir mig að reyna að sleppa því bara. Ég er nefnilega smávegis eftir á í hlaupaplaninu til að vera alveg tilbúin fyrir Bangor næsta sunnudag. Og ég vissi að ég myndi ekki fara út í valhopp um Plas Bennion ef ég sæti frameftir nóttu með göróttan drukk gólandi "Learning to Fly". Ég kvaddi því fólkið og fór heim.
Hlaupaæfingin á laugardagsmorgun fór svo rosalega vel. Ég er enn rétt rúm 90 kíló og því hægari á mér en ég var þegar ég síðast hljóp 10 km, ég er líka búin að vera að einbeita mér dálítið mikið að brekkuhlaupi til að byggja upp alvöru þol. Mér tóks að hlaupa heilan kílómetra upp á við núna. Það þótti mér tilkomumikið. Það tók þó nokkurn tíma en samt, ég var hæst ánægð. Ég held ekki að mér takist að slá neitt hraðamet á sunnudaginn kemur, en ég er harðákveðin í að skemmta mér. Ég er búin að vera að skoða allskonar plön sem kenna manni hvernig maður getur náð upp tækni til að hlaupa hraðar, en ef ég skil sjálfa mig rétt þá þarf ég bara að vera léttari. Mér finnst það eiginlega bara elementary.
Ég hafði svo í hyggju að taka rólegt hlaup í morgun en hnén höfðu aðrar hugmyndir. Ég var með verk frá hæl og upp í nára sem gekk í bylgjum út frá hné. Engin hlaup á svoleiðis græju. Ég lagðist því í gólfið og tók eina Pilates æfingu. Ég er búin að vera að lesa mér til um hvernig á að gera Pilates rétt og ég er ekki frá því að ég finni heilmikinn mun. Það er meira en að segja það að finna þessa innri magavöðva sem maður virkjar í Pilatesinu. Að líkamsrækt fráskilinni er ég búin að ströggla örlítið í dag. Langar alveg svakalega í eitthvað en veit ekki hvað og vil ekki fá mér bara eitthvað ef það er svo vitlaust eitthvað og mig heldur áfram að langa í eitthvað. Mjög erfitt.
Kannski að ég fái mér bara eitthvað. Eða sleppi því. Það er ekki gott að segja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli