þriðjudagur, 22. maí 2012

Nú eru bara tvö æfingahlaup eftir í 10 km hlaupið í Bangor á sunnudaginn. Eitt í fyrramálið og eitt á föstudagsmorgun. Bæði eru styttri en æfingahlaupin undanfarið og fókusinn er á að slaka á og finna góðan ryþma. Ég hlakka voðalega til, þó ég sé ekki í alveg jafn góðu formi núna og ég var í desember þá sé ég enga ástæðu til annars en að þetta verði voðalega skemmtilegt. Mig langar þó alltaf til að gera betur og ég er mjög meðvituð núna um hvað ég get gert til að koma þjálfuninni í betra far. Ég les mér til um form og þjálfun í hinum ýmsu ritum og um daginn fékk ég senda grein sem heitir 10 Ways to be a better runner. Og hver er tillaga númer eitt? Jú, lose weight. Þannig að til að hlaupa hraðar þá, eins og mig grunaði, þarf ég að vera léttari. Það er ekki að segja að ég geti ekki hlaupið núna, og það vel, en það er bara engin spurning um að ég gæti hlaupið mun hraðar ef ég væri léttari. Næsta ráðlegging var svo að borða vel. Það er að segja að borða vel næringarfræðilega séð.

 Þetta tvennt hef ég fyllilega í hyggju að gera. Og er að gera. Hinar ráðleggingarnar eru svo líka fínar, þverþjálfa, hlaupa meira, finna hlaupafélaga, prófa nýjar leiðir, prófa hraðaskipti og brekkuhlaup. En aðallega fannst mér mest vert um ráðlegginguna að skipuleggja sig betur. Það er engin spurning að þá daga sem ég er búin að planleggja hlaup; veit klukkan hvað ég ætla að vakna, hvert ég er að fara og hvernig ég ætla að hlaupa, eru þeir dagar sem ég stend mig best. Þá morgna sem ég ætla að vakna og gera "bara eitthvað" sný ég mér oftast á hina hliðina og held áfram að hrjóta. En alvöru íþróttamenn plana sína þjálfun. Þeir eru með skipulag, með stundatöflu, með skýrt skilgreind markmið. Þeir gera ekki "bara eitthvað" og þeir snúa sér svo sannarlega ekki á hina hliðina.

Þegar ég set þjálfunina upp heilsteypta, sé  fyrir mér stóru myndina og hugsa um sjálfa mig fyrst og fremst sem íþróttamann sem þarf góða næringu og sterkan líkama þá gengur allt mun betur. Það er svoleiðis grundvallarsannfæring sem er drifkraftur í að gera vel. Þegar maður trúir einhverju og gerir það af öllum lífs og sálarkröftum þá getur manni ekki mistekist. Ég er íþróttamaður. Einfalt. Og þegar ég forgangsraða öllu í lífinu mínu þá kemur í ljós að það er mér afskaplega mikilvægt að setja þjálfunina í fyrirrúm. Hugsa stórt - gera stórt.


Engin ummæli: