þriðjudagur, 1. maí 2012

Mamma, pabbi og Láki.
Það var hrikalega gaman að fá mömmu og pabba í heimsókn. Mér finnast þau svo skemmtileg og svo eru þau svo þægilegir gestir, það þarf ekki mikið til að gera þeim til hæfis. Smá rölt og góður matur og vín og þau eru kampakát. Við röltum um Wrexham og fórum svo í dagsferð til Liverpool, skoðuðum Chester og fórum í langa göngu/hlaup um Rhos og nágrannaþorpin. Rigningin hér í Wales aðeins að vefjast fyrir okkur en það hefði líka getað verið verra. Verst finnst mér að vera ekki með nein plön um hvenær ég hitti þau næst.

Ég tók afskaplega meðvitaða ákvörðun um að sleppa fram af mér beislinu á meðan mamma og pabbi væru hér í heimsókn. Annað væri nú. Mér þótti bara við hæfi að fá mér rauðvínssopa með þeim. Og fara með þau út að borða. Við vorum jú í Liverpool að borða hjá Jamie Oliver. Það var líka ekkert að því að fá jarðaber með rjóma í eftirrétt. Mér þótti meira segja í fínu lagi að opna lakkríspokann og narta á lakkrís með þeim eitt kvöldið. Það sem var ekki í lagi var hvernig græðgin stigmagnaðist hjá mér þannig að ég var farin að bera súkkulaði og hnetur á borð kvöld eftir kvöld. Það sem var ekki í lagi var hvernig ég leyfði "geðveikinni" minni að ráða förinni. Hvernig ég byraði að plotta og ljúga og plana og ákveða næsta "skammt". Í staðinn fyrir að tala blíðlega til sjálfrar mín og minna mig á hvað ég vil fá út úr lífinu og hvað það er sem gerir mig í alvörunni hamingjusama, þrjóskaðist ég við og snéri upp á mig með þjósti. Ég á þetta nammi skilið og ENGINN getur tekið það frá mér! Ég endaði svo á borða svo mikið í gærkvöldi að ég gubbaði. Ég þandi svo á mér magann að hann gat ekki tekið við meiri mat en ég hélt samt áfram að borða. Þangað til maturinn hreinlega kom aftur til baka.

Þetta er ekki fallegt.

Og þá er nú víst lítið annað að gera en að trappa sig niður aftur. Minnka skammtinn í dag. Fara út að hlaupa. Tala blíðlega til sjálfrar mín. Ég veit hvað ég vil og svona útúrdúrar eru bara til að færa mér enn betur sanninn um hvað það er.

Ekki sé ég nokkra einustu ástæðu til að vera með samviskubit. Andskotakornið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

vá hvað þú ert hrein og bein. Hudlaust ærlig eins og daninn segir..