Við erum að fara með Lúkas til Liverpool í dag til að hitta ofnæmissérfræðing. Ég er því í fríi í dag og það er nú alltaf dálítið gott. Það verður nú líka örugglega gaman að kíkja á Lifrarpoll, ég hef enn ekki komið þangað og þó við höfum ekki mikinn tíma til að líta í kringum okkur þá getum við örugglega skoðað eitthvað smá. Annars þá hef ég svo í hyggju að taka lestina þangað einn daginn í svona dagsbæjarferð. Best að bíða þar til að mútter mamma kemur í heimsókn og við getum skoðað Bítlaslóðir.
Ég er búin að ákveða að verða ekki hálfsdagskelling, það hentaði ekki nógu vel. Verlsunarstjórinn vildi fá einhver loforð um sveigjanleika sem ég get ekki lofað með lítið barn. Ég meina hver getur sagt að hann geti komið í aukavinnu hvenær sem er þegar lítið barn er á heimilinu? Mér fannst hálfósanngjarnt að krefjast þessa af mér. Auðvitað myndi ég reyna að koma ef hún þyrfti á mér að halda svona óvænt en henni fannst ég ekki vera með nógu örugga barnapíu. Þetta er ekki alveg sanngjarnt vegna þess að hinar kellingarnar vinna ekki yfirvinnu og engin þeirra á ung börn. Þær bara neita að mæta og það er bara þannig. Þannig að ég get ekki alveg séð afhverju ég þurfti að lofa einhverjum ófyrirséðum aukatímum en svona er það nú. Ég sagðist því bara halda fullu vinnunni og sjá svo til síðar. Ég nota bara þann litla tíma sem ég hef með Láka mjög vel.
Hvernig er það á Íslandi núna, eru unglingarnir reykjandi og blótandi og almennt að haga sér illa? Mér líst nefnilega ekkert á unglingana hérna. Stelpurnar eru druslulegar og eignast fyrsta barn svona um og upp úr fjórtán ára. Strákarnir drekka og reykja hass og slást um helgar svona bara að gamni sínu. Þau sitja í strætó og blóta sig blá í framan og þykjast vera stórkallar. Verst finnst mér hvað þau eru ofbeldisfull. Hér eru stanslausar fréttir um slagsmál hingað og þangað og allt virðist eitthvað svo tilgangslaust. Mér varð um og ó um daginn egar ég var að bíða eftir strætó og hópur unglinga réðst inn og byrjaði að reyna að brjóta rúður og rífa niður ruslatunnur. enginn aðhafðist neitt til að stöðva þau enda allir dauðhræddir við þau. Ég vil ekki að Lúkas minn verði svona. get ég stöðvað það með því að ala hann vel upp eða er jafningjaþrýstingurinn of mikill. Á ég bara að flytja með hann heim í öryggið á Íslandi, eða er þetta eins þar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli