fimmtudagur, 13. janúar 2011
Ástæðan fyrir óyndinu í gærkveldi stafaði af of mikilli naflaskoðun. Ég á það mikið til að velta mér upp úr hlutunum þangað til ég er búin að hugsa þá í spað og raunveruleikinn er allt annar en það sem ég er búin að ímynda mér. Ég hafði fyrir nokkru horft á voðalega skemmtilegan sjónvarpsþátt sem leitaðist við að afsanna með empirískum rannsóknum ýmsar algengar mýtur um megrun og fitutap. Margt skemmtilegt kom þarna fram en það sem fékk mig til að kinka kolli og segja við Dave; "þetta hef ég alltaf sagt" var þetta með brennslukerfi (metabolism). Ég hef mjög oft heyrt feitt fólk halda því fram að það sé með hægara brennslukerfi en annað fólk og að það borði mjög lítið og mjög hollt. Ég hef alltaf pú púað á þetta, ég er sannfærð um að eina ástæðan fyrir offitu er ofát. Simples. Og kemur ekki í ljós að ég hef rétt fyrir mér. Þegar það er rannsakað þá kemur í ljós að fólk gleymir 60% af því sem það borðar yfir daginn, meira að segja þegar það er látið halda dagbók eða vídeóbók yfir átið. Grannt fólk heldur svo að það borði meira en það gerir. Það eru stjarnfræðilegir möguleikar á að þú sért einn af þeim örfáu sem eru með þetta margfræga hæga brennslukerfi. Stjarnfræðilegir. Ég sat svo hér í gær og hugsaði með mér að ég get ekki gleymt neinu því ég geri þetta öfugt, ég skrifa fyrst og borða svo. Ég er skrifa niður á sunnudegi hvað ég ætla að borða á mánudegi og ég útbý það líka á sunnudegi. Allt vigtað, flokkað og tilbúið til neyslu. Ég sting ekki upp í mig molum yfir daginn og ég vafra ekkert út af plani. Og ég stunda líkamsrækt af nokkru kappi. Ég er tvímælalaust að borða hreint fæði að því leytinu til að ég bý eiginlega allt til frá upphafi hér heima. Og samt léttist ég eiginlega ekki neitt. Ég veit ekki um neinn sem vinnur jafn hörðum höndum að þessu og ég og fær jafn lítið uppskorið. Hvað er eiginlega að hjá mér? Afhverju er ég að vinna og vinna og ekkert gerist á vigtinni? Og ég fór að hugsa að ég hlyti bara að vera með svona hæga brennslu. Og varð svo um að ég væri fallin í þessa gryfju sem ég er búin að hlæja að öllum hinum fitubollunum fyrir að falla í að ég hugsaði með mér að það væri best að ég æti einn pakka af Oreo kexi. Og gat svo ekki hægt að hugsa um helvítis kexið. Löngunin líður hjá, maður þarf bara að vera smá agaður í nokkrar mínútur og svo tekur skynsemin aftur við. Skynsemin segir mér líka að ég hafi uppskorið heilmikið, og flest af því merkilegra og mikilvægari lexíur en það að sjá tölur á vigtinni. Eins merkilegt og það er nú.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Hæ Svava Rán
Ég fylgist svolítið með blogginu þínu og sé að þú ert að standa þig SÚPER vel. Frábært og húrra fyrir því.
Varðandi þetta með af hverju gerist ekkert.... ertu ekki að innbyrða slatta af próteinum? Ég meina meira en ráðlagður dagskammtur er skv. manneldisráði eða lýðheilsustöð eða hvað þetta heitir?
VEistu í hvaða blóðflokki þú ert?
Er bara að pæla því ég þekki eina mjög vel sem var í sömu vandræðum, æfði af kappi 4-5x í viku, borðaði próteinsjeika og var mjög passasöm í mataræði en léttist aldrei neitt. Svo hætti hún að taka þetta mikla prótein og fór að borða eitthvað fjölbreyttara og ÞÁ fóru hlutirnir heldur betur að breytast og er hún í kjörþyngd í dag =)
Baráttukveðjur (er í sömu pælingum og var að byrja í ræktinni líka)
Rannveig Bjarnfinnsd.
Sæl,
Fylgist alltaf með blogginu þínu og hef gaman af. Er á mjög svipuðum stað og þú, þ.e. búin að missa 30 kg. og var föst. Prófaði svo núna að fylgja Paleo mataræðinu og ég finn rosa mun á mér. Prófaðu að lesa þig aðeins til um það og sjáðu hvort það sé eitthvað sem gæti hentað þér, allavega í einhvern tíma. Ég held reyndar inni baunum en sleppi öllum kolvetnum nema úr ávöxtum. Mjög fyndið því þetta er í raun í algjörri andstöðu við það sé sú sem kommenteraði á undan sagði en ég held að það þurfi reyndar allir að finna það sem hentar þeim. Ég held líka að fólk sem talar um að borða í hófi og smá af öllu sé ekki fólk sem hefur átt við offituvandamál að etja. Við sem höfum gert það vitum að allt í hófi og af skynsemi virkar ekki fyrir okkur!
Baráttukveðjur!
Takk fyrir þetta stelpur, sannar að það þurfa allir að finna hvað virkar fyrir sig! :) Ég þarf að rannsaka þetta allt saman núna.
Ég les alltaf bloggið þitt og hef gert í mjög langan tíma. Hef sjálf verið of þung lengi en tók loksins á mínum málum í ágúst þegar ég kynntist The Dukan diet. Síðan þá hef ég lést um 17 kg og er enn að. Þetta er kannski svolítið extreem mataræði og er líklega ekki allra en það virðist henta mér ákaflega vel. Ég tók mér pásu yfir jólin og flippaði algjörlega í 3ja vikna jólafríi á Íslandi, þyngdist um 2kg en er nú þegar búin að ná þeim af aftur. Gangi þér vel að finna hvað hentar þér best :)
Skrifa ummæli