Hvort kom fyrst eggið eða hænan? Það er það sem mér dettur helst í hug þegar ég reyni að skilgreina þennan pirring minn út í það sem ég sé sem "failure" hjá sjálfri mér. Þegar mér líður vel í heilanum þá langar mig ekkert í sætindi og á sama tíma virðist vigtin heldur ekkert pirra mig. Þó ég standi í stað. Svo lengi sem skepnan sefur get ég haldið áfram ótrauð og fagnað af heilum hug og hjarta öllum hinum sigrunum; 5 km hlaup, úr 26 í 16 í buxum, 57.5 kg í hnébeygjum, 3 skálastærðir niður á við ásamt almennri líkamlegri vellíðan. En þegar skepnan rís og beljar á sætindi þá leita ég logandi ljósi að afsökunum. Hverju sem er til að láta allt þetta stórkostlega skipta engu máli bara svo ég hafi gilda afsökun til að troða í andlitið á mér. Og besta, allra, allra besta afsökunin er að ég léttist ekki (skítt með að ég hafi minnkað um buxnastærð, vigtin segir að ég léttist ekki). Og þá hugsa ég um leið, þetta virkar ekki, ekkert virkar, ég ætla að gefast upp, ég verð hvort eð er alltaf feit, ég ræð ekkert við þetta GUÐI SÉ LOF OG DÝRÐ NÚ MÁ ÉG ÉTA! Ég er semsagt ekki svekkt yfir því að léttast ekki, ég er svekkt af því að þetta er svo léleg afsökun og ég fæ ekki nammi út á hana. Það eru nefnilega engar gildar afsakanir - ekki ein einasta.
Að hluta til ætla ég líka að skella skuldinni á keppnisskapið í mér. Það er bara ekkert gaman að tilkynna engar breytingar opinberlega viku eftir viku.
Ég er búin að prófa alla megrunarkúrana. Alla. Allt sem kemst í tísku um stund. Ég get meira að segja farið svo langt aftur í tímann að ég hef prófað Scarsdale kúrinn. Ég er búin að prófa þetta allt. Og þegar við skoðum þetta með vísindagleraugunum er augljóst að þrátt fyrir allt vælið í mér, og það er það sem þetta er, bara væl til að fá athygli eins og krakki í dótabúð, þá er þetta sem ég er búin að vera að gera síðustu næstum tvö árin það eina sem hefur virkað fyrir mig. Og það er enn að virka. Ég er búin að léttast um 33 kíló. Ég er búin að halda þeim af mér í allan þennan tíma. Ég bæti mig stanslaust í ræktinni. Ég er sætari og ánægðari en ég hef nokkurn tíman verið með sjálfa mig. Yfir hverju er ég eiginlega að kvarta?
Ég er búin að prófa alla þessa megrunarkúra. Og ég óska þeim sem fara í megrun alls hins besta og ég óska af öllu hjarta að kúrinn virki. Og ég vil líka fá að heyra í þeim eftir tvö ár, eftir fjögur ár til að fá að vita að kúrinn virki enn. Sjálf er ég sannfærð um að eftir tvö ár verði ég enn að rolla um á 80 kílóa bilinu. En það verða líka 80 kíló af nothæfum ofurköggla vöðvum . Eftir tvö ár verð ég ekki 150 kíló eins og hingað til hefur verið árangurinn af því að fara í megrun.
Heilinn er ótrúlegt tæki. Ég er alveg viss um að heilinn gefst upp langt á undan líkamanum. Ef ég gæti slökkt á heilanum á meðan ég hleyp kæmist ég örugglega miklu lengra. Fæturnir eru ekki búnir þegar heilinn segist vera búinn að fá nóg. Sama með lóðin, vöðvarnir myndu sjálfsagt leyfa eitt rep í viðbót eftir að heilinn segir stopp. Ég er ekki að kljást við neitt annað en heilann í mér. Hann er forritaður til að leita að afsökunum til að fá sætindi. Ef vigtin getur verið gerð að blóraböggli þá finnst honum það hið besta mál. En ég er búin núna að gera það sem hefur verið mitt allra öflugast vopn í þessari baráttu, í þessu ferli ,og það er að ég er búin að stoppa, hugsa og breyta. Nú þegar ég veit hvaðan sneytin, frekjulætin og bestíuhátturinn stafar verður miklu auðveldara að tækla það. Ég er ekki að segja að ég geti bara hætt að óska þess að verða 70 og eitthvað kíló, til þess er þetta of rótgróin hugsun ennþá. En ég sko heilu skrefi nær að lagfæra þann hugsunarhátt. Og ég held ótrauð áfram að gera það sem ég er búin að gera í næstum tvö ár. Afhverju að breyta því? Mér finnst það bæði gott og gaman og ég á jú eftir að halda áfram að gera það í sextíu ár í viðbót. Og ég hlakka bara til.
2 ummæli:
Vildi bara rétt segja hæ og að í mínum huga ert þú alveg MEGAdugleg. Það er því miður ekki séns að ég hafi agann í að skrifa niður daginn áður hvað ég borða, hvað þá að gera alla þessa dýrindis rétti sem þú gerir.
Þú ert að minnka um buxnastærðir kona svo eitthvað ertu að minnka (þó að leiðinda vigtin sé með stæla), haltu bara áfram á þínum beina vegi og ég er handviss um að kg muni svo tætast af í kjölfarið, svona þegar skrokkurinn kemst af jafnvægisslánni sem hann virðist vera á í augnablikinu.
Bestu kveðjur frá köldu Tokyo
Heyrðu mín kæra, þú veist að vigtin er ekki mælikvarði á árangur. Hún er bara ein breyta af mörgum og segir okkur ekkert án samhengis.
Lestu endilega þennan:http://blog.eyjan.is/ragganagli/2009/08/29/bolsot-yfir-vigtinni-ekki-fyrir-vidkvaema/
Þú ert að gera allar réttu breytingarnar á hegðun og hugarfari sem þarf til að halda réttum lífsstíl og það er að skila sér í minna ummáli, auknum styrk, betra þoli... megum ekki horfa framhjá því.
Skrifa ummæli