sunnudagur, 30. janúar 2011

Ég las um konu um daginn sem borðar allt sem hana langar í, og hana langar oft í alls konar "vitleysu", en samt er hún í fínu formi. Hún æfir heilmikið en aðalatriðið er að hún hættir að borða rétt áður en hún verður södd. Hún segist bara ekki líða vel ef hún er södd. Og þannig getur hún borðað hafragraut, eða egg og beikon, steikarsamloku eða salat, súkkulaði og ostaköku, snakk og snickers og allt án þess að fitna. Hún borðar ekki bara óhollan mat, reyndar borðar hún bara gæðafæðu, en neitar sér ekki um neitt. Hættir bara þegar hún er orðin södd. Hún segir að aðalatriðið fyrir sig var uppgötvunin að allur maturinn yrði til á morgun líka. Það væri alveg nóg að fá sér bara smávegis í dag því hún gæti fengið sér þetta aftur á morgun ef hana langaði til. Og náði þannig jafnvægi. Þegar ég les svona byrjar að iskra í mér af öfund, reiði og von. Ég myndi gefa hægri handlegginn fyrir að geta hugsað svona og komið svona fram við mat. Og þegar ég hugsa um "endalegu útkomuna" þá væri þessi hegðun draumastaðan fyrir mig. Það er samt frekar ólíklegt að ég geti nokkurn tíma haft svona stjórn á mér. Ekkert frekar en krakkhóra getur látið hálfan skammt duga á degi hverjum. En svo hugsa ég líka að þetta væri ekki draumastaðan fyrir mig, draumastaðan væri að komast á eitthvert stig þar sem mér er bara alveg sama um mat. Borða bara til að fá næringu og læt það duga. En við þá tilhugsun verð ég döpur og leið. Líf án þess að njóta matar? Nei andskotinn ég tek frekar baráttuna og fæ þá að njóta öðruhvoru. Draumastaðan væri að njóta bara holla matarins og vera skítsama um allt draslið. Aftur, svona frekar ólíklegt að það gerist einhverntíman. Draumaútkoman væri einhverskonar blanda af þessu öllu. Geta hætt að borða þegar ég er orðin södd eftir að hafa notið djúsí og holls matars sem nærir mig fullkomlega. Ahh, já það má víst láta sig dreyma. Mér hefur af einhverjum ástæðum verið mikið hugsað til endalokanna að undanförnu. Hvað gerist þegar ég verð 70 og eitthvað kíló? Ég veit að þetta er kannski helst til snemmt að velta þessu fyrir sér núna en engu að síður þá get ég ekki að því gert þegar ég dáist að nýfengnum kinnbeinum, að ímynda mér hvernig ég verð þegar þessu er öllu lokið. Og ég þarf alltaf að staldra við þetta hugtak. Endalok. Þegar ég er búin. Þegar þessu lýkur. Og ég verð að stoppa sjálfa mig af þar. Ég veit nefnilega vel að þessu lýkur aldrei. Ég er fíkill og ég á eftir að díla við fíknina það sem eftir er. Svona alveg eins og mig langar alltaf smávegis í sígarettu. En ég er búin að vera að velta fyrir mér þar sem þessu kemur aldrei til með að ljúka en ég verð samt 70 og eitthvað kíló hvaða hvatningaraðferðir maður á þá að nota til að standa í stað. Það er ekki eins og það sé eitthvað spennandi verkefni. Vigta sig samviskusamlega á laugardögum og þakka guði að maður er ennþá 70 og eitthvað kíló? Fyrst datt mér í hug að það væri náttúrulega frábært tækifæri til að éta eins og geðsjúklingur eina vikuna og vera svo í kappi við sjálfan sig um að losa sig við það aftur vikuna á eftir. Þannig gæti ég alltaf séð áfram árangur á vigtinni. En það var örugglega bara fíkillinn sem hugsaði þannig. Þessvegna fannst mér svo mikilvægt að ég gæti verið búin að koma mér upp einhverskonar jafnvægi í hegðun minni gagnvart mat áður en ég næ að verða eins og ég vil verða útlits og með tilliti til líkamsburða í fitnessinu. Það væri nefnilega voðalega gaman að þurfa ekki að berjast alltaf stanslaust alltaf endalaust út í eitt alltaf hreint og endalaust. Að vera komin í andlegt jafnvægi er þessvegna lokamarkmiðið mitt.

Engin ummæli: