sunnudagur, 2. janúar 2011
Þau eru mér afskaplega mikilvæg þessi tímamót sem nýja árið ber með sér. Mér þykir það merkilegt að kveðja gamla árið, líta yfir farinn veg og þakka fyrir það sem vel hefur farið og leggja mat á það sem ekki tókst jafn vel og vinna úr því. Mér þykir líka afskaplega mikilvægt að reyna að líta fram á veginn og reyna að gera sér áætlun, hafa plan til að gera sitt besta til að hafa áhrif á það sem koma skal. Sumu stjórnar maður algerlega sjálfur (ég mæti í ræktina og ég vel hvað ég borða) annað getur maður bara gert sitt besta til að hafa áhrif á útkomuna (leggja vinnu í námið, leggja sig fram við að finna alvöru vinnu, gera raunhæfa fjárhagsáætlun). Þegar ég vaknaði í morgun var ég búin að kveðja 2010. Það var að mörgu leyti slæmt ár...en gott líka... Slæmt vegna þess að ég missti vinnuna. Og þrátt fyrir að hafa einfaldlega verið í hópi tugþúsunda annarra opinberra starfsmanna þá get ég enn ekki hætt að hugsa þetta sem persónulegt áfall. Mér varð mjög um og svo það hafa ekki fundið alvöru vinnu síðan hefur haft hræðileg áhrif á sjálfstraustið og sjálfsálitið. Árið var svo gott að því leytinu til að ég kom líkamsrækt og nýjum lífstíl algerlega fyrir í lífinu. Ég léttist lítið en boj ó boj það sem ég lærði mikið. Ég ætlaði svo að byrja 2011 eins og svo mörg önnur; nú þarf að taka sig á, borða minna, æfa meira...en svo fattaði ég að það er ekki það sem þarf. Það er annað sem ég þarf að einbeita mér að núna, ég er nefnilega með allt fitnessið á þurru landi. Það má vera að ég léttist lítið og það má vera að ég hrasi og falli alltaf öðru hverju en ég sagði í upphafi að þetta væri lífstíðarverkefni. Ég er ekki í kappi við tímann að verða einhver x kíló. Þetta er svo miklu, miklu stærra mál en einhver x kíló. Ég er búin að taka allt líf mitt eins og ég þekkti það frá 11 ára aldri og breyta öllu. Hvernig ég hugsa, hvernig ég elda, hvernig ég bregst við aðstæðum, hvernig ég hreyfi mig, öllu! Og ég þarf ekkert að hafa áhyggjur af því. Ég fell og ég læri af því. Ég fell og svo fylgi ég prógramminu. Ég fylgi prógramminu oftar en ég fylgi þvi ekki. Svo lengi sem ég held áfram að gera það sem ég er að gera þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því. Hitt er svo annað mál að ég þarf að leggja miklu meiri rækt við námið. Ég er ekki stolt af frammistöðunni 2010. Og ég hef í fyllstu hyggju að lagfæra það og útskrifast í sumar. Ég er ekki ánægð með vinnuna sem ég er í og ég þarf að laga það. Ég ætla að leggja vinnu í að finna vinnu. Ég eyði líka ennþá peningum eins og þegar ég var í vinnu sem borgaði alvöru laun og það þarf að laga. Ég þarf að gera fjárhagsáætlun. Bara það að segja þetta gerir mig hamingjusama. Lukkan yfir mér alltaf hreint! Ekki eitt plan heldur þrjú! Frábært. Það er ekkert sem gerir mig ánægðari en gott plan. Þetta á eftir að vera gott ár. Gleðilegt 2011.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þú getur verið ánægð með sjálfan þig.
Skrifa ummæli