Uppskriftir. Ég er ferlega léleg í svoleiðis. Ég er slumpari, sé uppskrift einhverstaðar, man bara helminginn af henni og á svo ekki til hitt sem ég man og skálda bara og slumpa þangað til ég er komin með eitthvað sem ég myndi borða. Það er afar sjaldan sem ég get gert sama hlutinn tvisvar. En samt, ég skal reyna.
Sætar kartöflur með blaðlauk og osti.
2 stórar sætar kartöflur eru þvegnar og þurrkaðar, stungnar með gaffli, nuddaðar með smávegis ólífuolíu og sjávarsalti og svo settar inn í ofn í svona 40 mínútur. Þangað til þær eru svona nokkuð mjúkar. Skera niður einn blaðlauk og hæg steikja á pönnu í smá olíu. Krukka svo saman við hann matskeið eða svo af fitulitlum rjómaosti með skemmtilegu bragði (ég notaði lauk og svartan pipar) eða fitulitlum venjulegum osti, eða parmesan eða gorgonzóla eða bara það sem er gott á bragðið eða til eða vekur ánægju. Taka svo kartöflurnar út úr ofninu, skera í tvennt og maka lauk-ostinum ofan á og svo aftur inn í ofn í nokkrar mínútur. Þetta má svo bera fram með hverju sem er, kjúlla, svíni eða fiski. Eða bara eitt og sér svona sem léttur réttur. Ég borðaði mínar kaldar í hádeginu með köldum kjúlla og fannst ljómandi alveg hreint.
Eggjamúffur.
Þessar eru algerlega háðar skapgerð (eða brestum) hvers og eins. Mér finnast eggjahvítur góðar og þar af leiðandi eru múffurnar tilvaldar fyrir mig, en sumum þætti þetta kannski bragðlaust. Ég held ég hafi hellt í skál 10 hvítum og 2 rauðum. Hrærði vel og setti svo út i það, 2 matskeiðar kotasæla, fín skorna sveppi sem voru þurrsteiktir á pönnu, oregano, svartan pipar og salt og teskeið af lyftidufti. Hrærði aftur vel og hellti svo í 6 sílikón muffin form. Bakaði í kannski 20 mínútur. Ég man það ekki alveg. Mér dettur í hug að næst setji ég sólþurrkaða tómata. Eða blaðlauk. Eða pónkupons af skinku. Eða grænar baunir. Eða það sem er í ísskápnum. Þetta er sko svoleiðis uppskrift. Ég borða tvær múffur í morgunmat, afgangurinn geymist vel í ísskáp, jafnvel í nokkra daga. Mér finnast eggjamúffurnar sem eru með spelti og osti og möndlumjöli betri en akkúrat núna passa þær ekki inni í prógrammið.
Kúskúskökuna þarf ég að fínpússa aðeins en hún lofar góðu. Sjáum hvað gerist á morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli