þriðjudagur, 18. janúar 2011

Eiginmaður minn elskulegur sá til mín um daginn þar sem ég stóð með bolognese sósudós í hendi og var að lesa næringarinnihaldið af miklum áhuga. "Það er ekkert að marka þetta" segir hann og brosir. Og þegar ég innti hann eftir hvaðan hann hefði þær upplýsingar þá kemur í ljós að hann mælir og rannsakar næringarinnihald matvöru í vinnunni. Ég vissi að hann passaði upp á salmonellu og e-coli en ég hafði ekki gert mér grein fyrir þvi að hann skoðaði þetta svona nákvæmt. En jú, svo er og hann sagði mér meira. Það eru svo rúmir staðlarnir að þegar á matvöru stendur "aðeins 3% fita" er bara heppni ef svo er. 3% eru 3% ef það er innan 10% ramma. Kolvetni eru reiknuð eftir á og er mjög ónákvæm vísindi og verra eftir því sem fleiri matartegundir eru í einni dós. Þannig er blönduð sósa eins og þessi bolognese dós sem er tómatar og olía og grænmeti og krydd og hitt og þetta nánast útilokað að mæla nákvæmlega. Þetta er allt bara slump. Það eina sem er hægt að stóla á eru hreinar matvörur, eins og t.d. kjúklingur eða hreint jógúrt eða gúrka. Nú vona ég að standardinn sé bara svona lélegur hér í Bretlandi og að annarstaðar sé þetta nákvæmari vísindi. En ég er tvímælalaust komin með enn eina áminninguna hvað það er mikilvægt að elda sjálfur og úr sem náttúrulegustu hráefnum. Og ég sem var komin með doktorsgráðu í að lesa á miðann!

4 ummæli:

Erna Magnúsdóttir sagði...

Ég bý einmitt líka í UK og sá hroðalegan heimildarmyndaþátt á BBC um hvað það er lítið af reglum og hvað þær eru lausar í reipunum um innihaldsmerkingar. Ég held líka að reglurnar séu ekkert skárri annars staðar. Svo er víst vandamál í UK að það mennta sig svo fáir sem matvælafræðingar svo að það væri ekki einu sinni til fólk til að sinna eftirliti ef reglurnar væru hertar.

Inga Lilý sagði...

Japanir eru stórkostlegir, hérna merkja þeir allt með næringarinnihaldi, jafnvel hádegismatinn í vinnunni minni. Það er boðið upp á 4 mism rétti og nokkra smárétti og við hvern rétt er kcal innihaldið tekið fram.
Á sushibökkunum sem maður kaupir á sushistöðunum er kcal innihaldið líka og svona mætti lengi upp telja.
Ég hugsa að þetta sé nokkuð rétt hérna þar sem þeir eru hrrrikalega stífir á öllum reglum og reglugerðum.


Hjálpar manni oftast amk við að velja matinn sinn.

murta sagði...

Verð að gera mig seka um steriótýpu glæp og sá einmitt fyrir mér að Japanir væru með þetta allt á hreinu! :) Hvað ertu að gera þarna í Tokyo by the way?

Takk fyrir innlitið Erna, alltaf gaman að fá komment :)

Inga Lilý sagði...

Já Japanir eru með flestar reglugerðir alveg 100% og gott betur. Þetta er samt ótrúlega þægilegt þar sem ég er ekki þessi nestistýpa þá er ógurlega gott að sjá hvaða réttur innihaldi fæstu kcal (og þeir eru oftast nær alveg bráðhollir, ekki mikil sósu og fitu menning hér í vinnunni).

Ég er að vinna fyrir Actavis. Við erum að reyna að koma lyfjunum okkar á markað hérna og ég var því send út til að vera milligöngumaður á milli okkar og japanska fyrirtækisins sem við erum í samstarfi við. Algert ævintýri og hjálpar ógurlega til við þyngdartapið þar sem eina súkkulaðið hér (mín mesta freisting) eru KitKat og Snickers og það eru alveg takmörk fyrir því hversu miklar cravings maður fær í þetta. :)

Mér finnst þú bara svo ótrúlega dugleg og vildi að ég væri eins dugleg að elda og spá í mat eins og þú. Það kemur kannski þegar ég "verð stór" :)