laugardagur, 8. janúar 2011

Ekki get ég svosem kvartað yfir jólagleðinni minni. Ég vó 92 kíló í morgun og samkvæmt opinberum mælingum hef ég staðið í stað á öllum svæðum nema rassi sem eykur í um 2 sentimetra. En það er nú örugglega bara svo það sé þægilegra að sitja á honum. 1 kíló í opinbert plúss er ekkert til að væla yfir og ekkert sem ég get ekki skafið af mér auðveldlega. Það sem ég helst hef tekið frá þessu tímabili eftir mikla íhugun en að ég þarf að læra að slaka aðeins á. Ég er einarður aðdáandi þeirra fílósófíu að maður eigi að fá sér "eitthvað gott" (lesist óhollt) öðru hvoru. Það er ekki hægt að gera það ekki, nema að maður sé alveg spes manneskja sem finnst smjör og rjómabragð vont og fær ekki spennuhroll við tilhugsunina þegar það er til kex eða súkkulaði upp í skáp. En svoleiðis fólk er nú örugglega bara one in a million. Ég er að sjálfsögðu ein af þeim sem finnst sjálfsagt mál að fá sér súkkulaði í morgunmat og get borðað 4 skálar af Lucky Charms í einu og trúi því af ástríðu að allt bragðist betur ef það er rjómi í uppskriftinni. Þannig að fyrir mig er málið að fá mér smávegis, pakka því svo aftur saman og snúa mér aftur að spínatinu. (Ég elska reyndar líka spínat en það er annarskonar ást.) Málið er bara að í hvert sinn sem ég fæ mér eitthvað gott fæ ég líka nett taugahret. Og samviskubit og vott af sjálfshatri. Allt það sem ég myndi segja öðrum að er alveg bannað að fá. En hugsið þetta; síðan ég var 11 ára er ég opinberlega búin að berjast við spikið, sjálfa mig og allt mitt umhverfi. Það er miklu lengri tími í niðurbrot, vonbrigði og sjálfshatur en þetta tímabil sem ég hef verið sigurvegarinn. Í hvert skipti sem ég fæ mér eitthvað gott hugsa ég með mér að nú sé þessu lokið. Nú sé ég búin að tapa. Þetta sé skiptið sem ég get ekki þurrkað súkkulaðið af kinnunum og farið aftur í ræktina. Það er mér svo miklu eðlilegra ástand að takast ekki að viðhalda lífstílnum en það að standa mig vel. Er nokkur furða að ég hafi smá áhyggjur? En í hvert skipti sem ég legg kexpakkann frá mér færist ég nær því að trúa að nú sé þetta allt að koma, að ég sé að verða seif, og að þetta sé í alvörunni að gerast hjá mér. Að ég sé í alvörunni sterkari en ég hefði nokkur tíman trúað sjálf.

Engin ummæli: