mánudagur, 10. janúar 2011

Hópur verkfræðinga vinnur að lausninni.
Nú geri ég mér fyllillega grein fyrir því að fegurðin skapar ekki hamingjuna. Ég hika sko all svaðalega mikið við að setja samasemmerki á milli þess að vera mjór og þess að vera fallegur og það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Hinsvegar get ég auðveldlega sett samansemmerki á milli þess að vera grannur og að það sé auðveldara að taka þátt í daglegu lífi. Þannig er til dæmis með nærföt. Það eru nú þónokkur ár síðan ég gaf upp alla von um falleg nærföt og tók nauðsyn framyfir kynþokka. Stelpurnar einfaldlega þurftu á styrkari hjálp að halda. Það gefur líka auga leið að brjóstahaldarar sem eru verkfræðileg stórvirki með burðarþol reiknað út upp á millimetra gefa ekki mikið rúm fyrir blúndur og silki. Ég sætti mig svosem alveg við þetta, svona er lífið bara ef maður fellur ekki alveg inn í formið. En það var ekki auðvelt. Verkfræðileg undur og stórmerki eru ekkert til í öllum búðum, nei þau þarf að kaupa í rándýrum sérverslunum. Það var þessvegna eðlilegt að ég yrði aðeins hamingjusamari þegar ég sá að í réttu samhengi við minnkandi mikilvægi burðarþols þá eykur í blúndustuðullinn. Og blúndustuðulinn þýðir líka aukið úrval. Það má vera grunnhyggið en það að fara í blúndunærur í stíl við blúndubrjóstahaldara eftir rækt í morgun veitti mér ekki bara hamingju og gleði yfir kvenleika mínum, heldur minnti mig það líka á að ég er núna þáttakandi í öllu draslinu. Allar þessar litlu hindranir í vegi mínum að taka þátt í lífinu eru að falla ein af annarri.

Engin ummæli: