fimmtudagur, 20. janúar 2011

Ég hljóp þriðja góða hlaupið mitt á viku núna. Í stað þess að hlaupa eins lengi og ég get á jöfnum hraða eins og ég gerði áður er ég núna að einbeita mér að jöfnum hvíldum inn á milli svaka spretta. Ég fer enn 5 kílómetra en stundum er ég að labba og stundum þeysist ég áfram eins og djöfullinn sé á hælum mér. Þegar ég byrjaði fyrst að hlaupa á bretti var "þægilegi" hraðinn minn, þ.e.a.s. sá hraði sem ég get hlaupið lengi í góðum ryþma, 7.2 kílómetrar. Svo var ég farin að vera mest á 8.5 og alltaf á 1.5 halla. Í morgun komst ég svo að því eftir sprettina að 9 kílómetrar er þægilegi hraðinn minn. Hnéð er, jah kannski ekki alveg fullkomið en að minnsta kosti er ég ekki grátandi af sársauka eins og var þegar ég hætti að hlaupa fyrir nokkru. Hlaupin eru voðalega flókin fyrir mig. Þá daga sem ég fer í lyftingar vakna ég bara, fer í gallann og skunda í rækt. Ekkert mál. En þá daga sem brennsla er plönuð ýti ég alltaf á snooze einu sinni, rífst svo við sjálfa mig í smástund og neyði svo sjálfa mig til að truntast af stað. Og alveg þangað til ég er komin af stað, jafnvel 3 til 4 mínútur inn í hlaupið er ég enn með kvíðahnút í maganum yfir komandi átökum. En svo gerist eitthvað, ég get hlaupið lengur, eða hraðar en ég gerði ráð fyrir og svo byrja ég að keppa við sjálfa mig. "Næst þarftu að taka sprettinn á 12 kílómetrum, ein mínúta í viðbót á þessum hraða, kommon hlussa þú hlýtur að geta klárað kílómetra, hækkaðu hallann í 5 og prófaðu svo að hlaupa!" Og ég fell fyrir áskoruninni í hvert sinn og áður en ég veit af eru liðnar 40 mínútur og ég þarf að drífa mig í sturtu og kæla mig niður svo ég sé bara ljósrauð í framan en ekki djúpfjólublá þegar ég mæti í vinnu. Og tilfinningin er ólýsanleg, stolt og óbeisluð gleði, adrenalín og endórfín streymandi um æðarnar. Þessvegna er svo skrýtið að ég muni ekki þá tilfinningu þegar ég vakna og fer af stað næst. En kannski er þetta bara betra svona, ég fæ að vera geislandi stolt af því að hafa ýtt sjálfri mér út fyrir "comfort zone" allavega þrisvar í viku.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oft finnst mér eins og ég hafi skrifað pistlana þína sjálf.... alltaf jafn gaman að spegla sig í skrifunum þínum. Þú snilingur!
kveðja
Alda

ragganagli sagði...

Sammála síðasta ræðumanni... ég hefði getað skrifað þennan pistil.... hvert EINASTA orð... sjálfsrifrildið og kvíðahnúturinn eru góðkunningjar hérna megin... og sem betur fer stoltið og endorfínið líka :)

Duglega duglega kona!!