sunnudagur, 13. janúar 2013

Tveggja kílóa planið mitt virðist ætla að byrja vel. Tveggja kílóa planið miðar við kenningar sem segja manni að hafa markmiðin smá og sýnileg. Markmiðið er núna að losa mig við 25 kíló af óþarfa spiki. En málið er að ég er búin að vera að reyna að losa mig við á bilinu 17-25 kíló fram og tilbaka núna í tvö ár. Upp og niður um næstum 10 kíló renni ég mér eins og ekkert sé og alltaf á sama staðnum aftur og aftur. En ég neita algerlega að láta þetta ná til mín og ætla að halda áfram að búa til ný plön og nýjar áætlanir þangað til þetta kemur hjá mér. Bjartsýnisröndin höfð að leiðarljósi. Og bjartsýnisröndin segir mér að 25 kíló séu of mikið að kljást við í einu. Ég veit það af reynslu. Þessvegna verðum við að prófa nýja taktík.

Tveggja kílóa planið stefnir á að léttast um tvö kíló. Það er allt og sumt. Ég þarf bara að léttast um tvö kíló. Það er ekkert mál að léttast um tvö kíló, það geta allir. Og tvö kíló eru svo miklu auðveldari að díla við en tuttuguogfimm, tvö kíló eru viðráðanleg. Eiginlega bara skemmtileg.

En maður verður nú víst líka að setja tímamarkmið á þetta og mér þykir mánuður vera góður viðmiðunartími. Markmiðið verður þessvegna tvö kíló á mánuði. Í janúar hef ég í hyggju að léttast um tvö kíló. Mælanlegt, geranlegt, ekkert mál.

(Trixið er svo núna að minnast ekki á að í febrúar, mars, apríl og þar áfram hef ég í hyggju að gera slíkt hið sama. Við segjum ekkert frá því núna til að skemma ekki neitt fyrir litla heilabúinu mínu.)

Ég verð að viðurkenna niðurlút og skömmustuleg að ég náði að verða 97 kíló eftir ofátið um jólin. Það er þessvegna byrjunarpunkturinn núna. En ég get líka glöð skráð 94.5 kíló vigtina í morgun og eins og ég segi þá er tveggja kílóa planið alveg að gera sig. Nú get ég kosið að viðhalda þessu út janúar enda markmiðinu náð. Jah, svo lengi sem ég er undir 95 1. febrúar sko. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég taki nýja byrjunarvigt í hverjum mánuði eða hvort ég geti safnað í sarpinn. Þannig væri ég búin að léttast um hálft af febrúar kílóunum nú þegar (svo lengi sem ég er enn 94.5 1. febrúar). Eða hvort ég tel bara frá hverjum mánaðarmótum.

Ooooooh hvað ég elska að stússast í að búa til nýtt plan.

Engin ummæli: