Ég var svo hamingjusöm. Þrammaði inn á skrifstofuna með rósrauðar kinnar og örlítinn hjálmbrag á hárgreiðslunni en að öðru leyti alveg 100% sátt. Það var svo gott að hreyfa sig aðeins í köldu morgunloftinu og það er líka bara svo gaman að hjóla. Ég ákvað að fara út í hádeginu og taka einn lítinn hring um Chester. Var komin eins langt frá skrifstofunni og ég þorði þegar ég tók eftir að afturdekkið var eitthvað lint. Og á innan við mínútu var það alveg komið í götuna. Ekki loftmólekúl eftir í allri slöngunni. Ég trúi þessu ekki! Fyrsti dagurinn og það springur hjá mér.
Ég hafði ekki um neitt að velja en að teyma hjólið í vinnuna og teyma svo aftur um borð í lest og svo kom tengdó og náði í mig á stöðina. Ég var jafn niðurlút og dekkið. Kannski voru örlögin að segja mér að sleppa því að hjóla, það var svartaþoka þegar hér var komið sögu og ég hefði kannski ekki verið sýnileg öðrum í umferðinni. Hvað sem því líður var ég ósköp döpur yfir þessu og aðallega yfir eigin vanmætti til að laga dekkið.
Það var því um lítið að velja á laugardagsmorgun en að henda hjólinu í bíl og fara á verkstæði. Þar var mér kennt að skipta um slöngu, laga slöngu og ýmsilegt annað ásamt því að ég keypti flotta pumpu og slöngubætur. Mér ætti ekki að vera neitt til ama núna.
Þegar hjólið var aftur komið í lag ákvað ég að fara í góðan hring í vetrarsólinni. Það er svo skrýtið með hjólreiðarnar, kálfarnir og lærin brenna og ég er kófsveitt þegar ég legg aðeins á mig en samt líður mér aldrei eins og að ég sé að "líkamsræktast". Ég er bara að skemmta mér.
Ég byrjaði á rúmum 7 kílómetrum til Wrexham og hringsólaði þar aðeins um áður en ég ákvað að stoppa og fá mér einn góðan latte. Sat á Neró og sötraði bollann og las blaðið og skoðaði fólkið.
Ákvað svo að fara nýja leið heim. Kanna aðeins umhverfið í kringum mig. Í staðinn fyrir að fara í gegnum Rhostyllen og Johnstown beygði ég til Bersham og fór sveitavegina heim.
Í Legacy fann ég líka þetta fína hús sem ég sá að var til sölu. Mig vantar einmitt nýtt hús og fletti upp á netinu en það kostar hálfa milljón punda og mig vantar þau líka. Þannig að við bíðum aðeins með að flytja til Legacy.
Þaðan hjólaði ég svo sveitavegina heim og kom til Rhos sveitt og sátt, himinlifandi með túrinn og allt sem ég sá á leiðinni. Ótrúlega skemmtilegt að finna svona nýtt hérna rétt hjá manni.
4 ummæli:
Þú verður að finna hjólalegu áður en við, pabbi þinn, mætum næst á svæðið og já, Lúkas verður að vera búinn að ná tækninnni.
Mútter mamma
Þú ert svo frábær og stórkostleg fyrirmynd mín kæra, ég bíð spennt eftir því að veðrið verði betra (lesis hálkan fari) þannig að ég geti hjólað. Ég stefni á að hjóla heim úr vinnu 2x í viku og svo líka í vinnuna þegar það tekur að birta örlítið meira.
Rokk kveðjur Tóta
Tu ert yndislegust :D
Og skitt med helvitis slonguna, hun gaf ter bara tækifæri til ad læra e-d nytt - ad skipta um og bæta slongu, svo tu verdir sjalfbjarga a lengri ferdum.
Mer finnst tetta einmitt svo frabært vid hjolin, ad fa ad sja svo margt af umhverfinu, komast langt yfir a skommum tima og vera frjals :)
Svo nu setjum vid stefnuna a hjol yfir Island i stad gongu/hlaups :D
Knus
H
Og þá byrjar að snjóa hér! Sjáum hvað setur með hjólið. Og já Hanna, við rúllum yfir landið sem allra fyrst :)
Skrifa ummæli