sunnudagur, 27. janúar 2013

Eftir nánast heila viku af stífluðum nefgöngum, hori og almennum kverkaskít byrjaði aðeins að rofa til í þefskyni rétt um kvöldmatarleytið í gær. Ég hoppaði nánast hæð mína af hamingju; sko lífið er bara ekki þess virði að lifa því ef ég finn ekki lykt og bragð af mat. Það verður bara endalaus eyðimörk af vansæld og tilbreytingarlausri eymd. Eymd og volæði. Já, ég sé bara ekki tilgang með þessu öllu saman ef ég finn ekki bragð af neinu. En þegar ég skyndilega fann vott af sápuilmi við uppvaskið tók ég strax  hamingju mína aftur og byrjaði að plotta eldamennsku helgarinnar. Byrjaði á kvöldmatnum og heilsuvæddi semi austurlenskan kjúklingarétt. Eins einfalt og auðvelt og mögulegt er en svona líka ljómandi gott. Ég setti tvær bitaðar kjúklingabringur á pönnu og hellti yfir einum bolla af vatni. Lét það malla á meðan ég skar niður einn rauðlauk, einn lauk og eina gulrót í strimla. Setti það út í pönnuna og lok yfir og lét vera í 35 mínútur. Skar svo niður eina rauða papriku og setti út á pönnuna með 1/4 bolla sojasósu og teskeið af sykri og lét malla óvarið í 15 mínútur. Ég hafði fyrr um daginn sett perlubygg í bleyti. Á meðan kjúllinn mallaði sauð ég byggið svona eins og maður sýður grjón. Og bauð upp á með réttinum í stað grjóna. Þetta var voðalega gott, og meinhollt líka.
Svo gott að það var allt búið þegar myndin náðist. 


Á meðan ég borðaði kjúllann plottaði ég verkefni sunnudagsins. Gulrótamorgunverðarkaka með kasjúhnetukremi, fíkjupróteinkúlur og hnetu-og tahini salatdressingu. Og svo á meðan ég skoðaði í skápana til að passa að ég ætti hitt og þetta og hripaði niður uppskriftir spáði ég í þessu öllu saman. Mér datt í hug eitthvað sem ég las í grein eftir Michael Pollan (af Eat food. Not too much. Mostly plants frægð) sem sagði að það er meira falið í því að borða mat en að annað hvort skemma eða bæta heilsuna. Matur snýst líka um njóta hans, um samveru og hefðir. Og mér gengur svo miklu betur þegar ég leyfi sjálfri mér að njóta matar, frá upphafi til enda.


Það virðist litlu máli skipta hvar maður treður niður fæti núna, maður er hvergi óhultur fyrir "súperfæði". Andoxunarefni, hollar fitusýrur og annað leiðinlegra efni er hvert sem maður lítur. Sjálfri leiðist mér þetta, mér hefur alltaf þótt þetta vera misskilningur og bera vott af hysterísku kaupæði. Acai og goji ber og annað slíkt er rándýr vara sem hefur engar vísindalegar staðreyndar rannsóknir að baki sér sem sanna að það beri með sér einhverskonar heilsusamlega yfirburði. Hefur einhver heyrt talað um lifur sem súperfæðu? Nei, örugglega ekki. En samt er lifur svo súperholl að annað eins hefur sjaldan sést. Hún er bara ekki sérlega sexí eða kúl.

Súperfæði er diskur sem er fullur af mismundandi grænmeti, hreinu óunnu kjöti og ferskum fiski og óunnu kornmeti fullu af trefjum. Heill og sannur matur sem finnst hvar sem er og þarf ekki að kosta hvítuna úr auganu. Súperfæði er matur sem maður eldar af gleði og býður með sér af rausn og nýtur í samveru við annað fólk.

Ég nenni allavega ekki að spá í því lengur hvað stendur í pressunni þann og hinn daginn um nýjasta súperæðið. Ég ætla að borða góðan mat í réttu magni, helst með góðu fólki. Mestmegnis hef ég þó í hyggju að njóta, og það þá hvort sem um súperfæði sé að ræða eða ekki.

Mér sýnist fílósófían í blandi við talnaleikinn minn vera að gera sig, hálft kíló frá í þessari viku. Við bara getum ekki beðið um meira.


Engin ummæli: