laugardagur, 30. maí 2009

Hvaða svakalega munnræpa er þetta! Hvað um það, mig langaði bara aðeins til að reyna að lýsa stemningunni hérna í Bretaveldi í dag. Það hefur runnið upp enn einn "Cup Final day" og í dag í glampandi sólskini keppa Everton og Chelsea um titilinn. Hér myndast alveg sérstakt andrúmsloft og hefur gert frá upphafi árið 1872 þegar Wanderers FC unnu The Royal Engineers 1-0. Þetta er elsta klúbbakeppni í heimi og er dæmi um það sem mér finnst alveg sérstaklega breskt. Öll fótboltalið eru gjaldgeng, hversu lítil sem þau eru og allir eiga sama sjens á að vinna. Bretinn alveg elskar "underdog" og keppnin kyndir þær tilfinningar í þeim. Hér ilmar allt um af útigrilluðum "sausages" og út úr Bargain Booze streymir fólk með kassa af bjór. Öðruhvoru má heyra sönglað "com´n you blues". Hér eru núna menn og reyndar örfáar konur, klæddar í liti þess liðs sem haldið með, meira Everton af því að þeir eru nær og eru líklegri til að tapa. Allir pöbbar eru fullir (og mennirnir líka) og sjónvarpið er búið að vera í gangi síðan klukkan 9 í morgun að skoða leikinn og keppnina frá öllum sjónarmiðum. Keppning hefur gífurlega merkingu fyrir minni klúbba fjárhagslega, ef þú færð að keppa við t.d Man. U. og á Old Trafford þar sem litli klúbburinn fær að deila miða ágóðanum þýðir það kannski að klúbburinn lifir annað ár. Og svo er alltaf hægt að vonast eftir kraftaverkum eins og þegar Wrexham vann Arsenal, gerði jafntefli við West Ham og tapaði svo fyrir Huddersfield! Þetta er alveg sérstakur dagur fyrir Dave. Hans elstu minningar eru frá að fara til afa síns fyrir klukkan 9 þennan dag og sitja svo saman og horfa á sjónvarpið allan daginn og skeggræða boltann. Hann man fyrst 1981 þegar Spurs kepptu við Man. City og Spurs unnu 1-0. Afi drakk bjór og Dave fékk pilsner. Og svoleiðis var það alveg þangað til afi hans dó 1988. Dave minnist síðasta leiksins sem þeir horfðu á saman með angurværð, en þá var keppnin á milli Wimbledon (núna MK Dons) og Liverpool. Afi hans var mikill Liverpool aðdáandi og Dave ákvað að stríða honum og halda með Wimbledon þann daginn, enda passaði það inn í underdog fílinginn. Og Wimbledon vann. Taid (afi) var niðurbrotinn á meðan Dave fagnaði. Og svo nokkrum mánuðum síðan dó hann og þar með lauk áralangri hefð. Í dag styðjum við Everton, þeir spila meira saman sem lið, ekki sem einstaklingar og svo eru þeir underdog (er til íslensk þýðing á þeirri hugmynd?) og okkur líkar víst svo vel við David Moyes, þjálfara Everton. Okkur er nokk sama um að þeir eru frá Liverpool, við erum Wrexham aðdáendur þannig að við dæmum önnur lið ekki eftir staðsetningu. (Hversu góð eiginkona er ég?) Sjálfri er mér sama um fótboltann per se en verð að viðurkenna að ég hrífst með stemningunni, þetta er skemmtilegur dagur.

2 ummæli:

Hanna sagði...

ji hvað er nú gaman að fylgjast svona með í lífinu þínu - vona að ég muni á einhverjum tímapunkti taka mig þig til fyrirmyndar og leyfa öðrum að fylgjast með í mínu gríðarlega spennandi lífi :-)

það hefði mér nú seint dottið í hug að Baba mín myndi hafa svona mikla yfirsýn í boltanum eins og færslan gefur skýrt til kynna.

ástar- og saknaðarkveðjur
H.

Rannveig sagði...

the underdog - lítilmagninn

dettur mér í hug