laugardagur, 16. maí 2009


Ég ákvað að vera alvöru Breti í dag og fór til veðmangarans og veðjaði £5 að Ísland vinni Júróvisjón í kvöld. Líkurnar eru 20/1 sem þýðir að ef Ísland vinnur þá fæ ég £105 til baka. Þetta var skemmtileg lífsreynsla, ég hafði enn ekki gert neitt í því að skoða hvernig þetta fer fram, þrátt fyrir að það er "bookies" á hverju horni hér. Enda veðja Bretar um allt og setja líkur á allt. Þarna inni voru einungis karlmenn og þeir ýmist stóðu eða sátu og fylgdust með hestum á skjá. Það var ekki góð lykt og andrúmsloftið bar allt merki um örvæntingu. (Ég er kannski að oftúlka hlutina!) Á meðan ég keypti miðann minn kom þar að maður og setti 6 20 punda seðla á borðið og allt á einn hest. (Tricky Trickster) Hann var með gleraugu sem á vantaði enn arminn og ég hugsaði með mér að það væri kannski skynsamlegra að kaupa ný gleraugu. Um allt voru auglýsingar frá samtökum fyrrverandi fjárhættuspilara. Mér fannst þetta allt ægilega spennandi. Ég hef alltaf sagt að ég sé ekki fjárhættuspilari sem Dave hlær að því ég spila í lottó á hverjum laugardegi og að hans mati er lítill munur þar á. Fyrir utan eins og hann segir þá eru mun betri líkur á að Ísland vinni Júró og ég fái peninginn tilbaka en að ég vinni lóttóið. Ég get allt eins sett pundið mitt í ruslið eins og að kaupa lottó miða. En það er nú bara stærðfræðingurinn í honum sem talar þannig. Ég veit að hann vonar jafn heitt og ég að hann hafi rangt fyrir sér, það vinnur jú alltaf einhver lottóið! En hvað sem því líður þá gerir þetta að verkum að Júró verður enn meira spennandi, áfram Ísland!!

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Sérðu Jóhönnu Sigurðar fyrir þér biðja Gordon Brown um peningaaðstoð við að halda keppnina að ári ef við vinnum?

murta sagði...

Ah, djösins, Dave gleymdi að segja mér að það er hægt að láta veðmálið vera "each way" sem þýðir að maður fær fjórðung ef maður lendir í öðru eða þriðja sæti! Ég hefði getað fengið 30 pund! Ég hefði átt að taka hann með mér til mangarans.