miðvikudagur, 6. maí 2009


Annað kvöld lýkur 13 ára samveru minni við starfsfólk Mercy spítalans í Chicago. Já, síðasti þátturinn af ER verður sýndur hér á morgun. Ég hef í öll þessi ár fylgst með ástum og ævintýrum lækna og hjúkrunarliðs og alltaf af jafn miklum áhuga. Þó svo að í áranna rás hafi fólk komið og farið þá hef ég alltaf haldið upp á ER sem sjónvarpsefni, mér var alveg sama þegar Clooney flutti vestur um, og þó það hafi verið sorglegt þegar Dr. Green dó eða þegar Dr. Carter flutti til Afríku þá kom alltaf einhver skemmtilegur karakter í staðinn. Að undanförnu hafa mörg gamalkunnug andlit verið að koma upp aftur, og mér hefur þótt gaman að því að fá að sjá alla þá sem í gegnum árin hafa verið hluti af þáttunum. Það hefur meira að segja spurst út að á morgun komi Clooney aftur. Enda var það hlutverk hans í ER sem kom honum á kortið þannig að það er vel við hæfi að hann þakki fyrir sig og komi fram í síðasta þættinum. Þó ég vilji nú kannski ekki meina að líf mitt verði að tómri eyðimörk og að ég líti ekki framar glaðan dag, þá verð ég engu að síður að viðurkenna að ég er smávegis leið yfir að þessu sé að ljúka. Ég hlakkaði alltaf til þegar nýtt "season" byrjar og það var alltaf gaman að fylgjast með hver endaði með hverjum næst. Eins gott að ég hef Grey´s til að hugga mig.

Engin ummæli: