Ég þrýsti saman herðablöðunum, legg stöngina yfir þau, stíg skref aftur á bak og sest svo á hækjur mér og stend svo aftur upp. Allir vöðvar líkamans þandir til hins ýtrasta og um heilann flæðir vellíðan; engin hugsun, bara vellíðan. Ég hækka aðeins í i-pod og eyk hraðann þar sem ég hleyp, set aðeins í axlirnar þegar ég fer upp brekkuna hjá Maes-Y-Mynnydd og finn hjartað pumpa hraðar; engin hugsun, bara vellíðan. Líkami minn er skapaður til að hnykla vöðva. Hjartað á að pumpa. Þetta er eins og að komast á fætur eftir veikindi. Maður er búinn að liggja í rúminu í nokkra daga, svitna og kólna til skiptis, eins og veikburða kettlingur. En þegar manni fer að líða betur og fer í sturtu og svo í hrein náttföt, þykka sokka og setur nýtt á rúmið líður manni eins og nýrri manneskju. Þannig líður mér núna. Eins og ég sé að standa upp úr veikindum. Líkami minn veit hvað honum er fyrir bestu, hann vill bara fá hollan og góðan mat sem styrkir og nærir. Hann vill fá að hreyfa sig, beygja og sveigja. Ég er enn í vímu eftir ræktina i kvöld. Ég er að uppskera því sem ég hef sáð. Og ég hef í hyggju að leggja enn meira í þetta núna. Ég veit nefnilega af reynslu að því meiri alúð sem ég legg í hverja æfingu, í hvert hlaup, í hvern matmálstíma, uppsker ég enn meira af góðgætum.
Ég er með plan, og planið virkar. Djöfull sem það svínvirkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli