miðvikudagur, 18. maí 2011

Það hefur reynst afskaplega erfitt að kenna Láka að tala íslensku. Ég hef allt frá upphafi bara talað íslensku við hann, lesið bækur og reynt að láta hann hlusta á tónlist og myndefni. En allt fyrir ekki, þó hann skilji vel flest þá verður það alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem enski orðaforðinn hans eykst og ég næ ekki að halda í við hann. Enska virðist vera tungumál sem "tekur yfir" og í ofan á lag þá finnst mér eins og það að hafa ensku að fyrsta tungumáli skemmi einhverja heyrn sem greinir hljóð eins og nn í einn og ll í drulla. Það kemur í ljós að það að hafa bara mig eina er ekki nóg til að læra tungumál. Að hafa mig eina sem málsvæði dugar ekki til. Ég hef líka þrýst dálítið á hann og hann þrjóskast við; honum finnst tungumálið erfitt og nú er þetta orðið að svona smá baráttu. Ég varð þessvegna ekkert nema glöð þegar hann bað mig í gærkvöld um að kenna sér að blóta á íslensku. Hér ríkja strangar reglur um hvað má og má ekki segja og hann er búinn að reikna út að "bad words" eru spennandi. Og datt í hug þetta líka þjóðráð til að komast í kringur reglurnar að læra bara að blóta á íslensku. Og ég gat ekki annað en kennt honum. "Hevvíddis!" "Djöööössins!" sönglaði hann hástöfum fyrir sjálfan sig. "Heeeeellvvíidddis, heelvvíiddis" og hló mikið rosalega. "I´m going to teach all the kids in my class" sagði hann svo og hló, helvíddis. "Þetta er öðruvísi á íslensku!" hvein í mér þegar eiginmaðurinn vildi fá að vita hvað mér gengi til. "Hann verður að læra þetta einhverstaðar!" Hurðarlaust helvíti, er þetta ekki hluti af þjóðararfinum, tungumálið? Móðurmálið? Það eina sem við Íslendingar eigum? Það hefði ég nú haldið!

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Mér finnst stundum alveg djöfulli gott að blóta. Fæ bara einhverja útrás við það. Varð reyndar að taka mig á fyrir nokkru síðan því mér var bent á að ég blótaði í tíma og ótíma. Ég notaði blótsyrði í stað atviksorða. Mér finnst bara flott að Lúkas kunni þetta en ég yrði ekki kát ef sjö ára nemeandi minn notaði blótsyrði í skólanum. Svona getur maður verið beggja megin borðsins.