Alltaf skiptist þetta í skin og skúri hjá mér. Ég féll á konunglegan hátt á Júróvisjónkvöldið. Sko svo um munaði. Á svo glæsilegan hátt að bara fitubolla sem er fitubolla í hjartanu myndi skilja. Svona þegar maður borðar þangað til að maður fær verk í rifbeinin. Þegar maður heldur áfram löngu eftir að maður er hættur að finna bragð. Ég ákvað að skipta á nammidegi út af júróvisjón og baka pizzu. Og borðaði fimm stórar sneiðar. Með tómatsósu. Svo fékk ég mér þrjár lúkur af Nóa kroppi og tvær lúkur af Sambó lakkrís. Og ég þurfti að handleggsbrjóta Dave til að fá nammið enda hafði ég falið honum það verkefni að geyma það þar sem ég vissi ekki af því. Og svo þegar ég var búin að því þá fékk ég mér Ben & Jerry´s cookie dough ís. Eitthvað ruglaðist ég í kollinum þegar ég var úti í Co-opi fyrr um daginn og féll fyrir "buy 1 get 1 free". Eða var búin að ákveða að ég væri ekki í skapi til að berjast. Hvað svo sem kom til þá verður að viðurkennast að þetta er mjög tilkomumikið át. Verst að ég fæ engin verðlaun fyrir að klára matinn minn. Þetta allt gerist á sama degi og ég fann nýja rækt. Sem ég er svo spennt yfir að ég hoppaði upp og niður af spenningi fyrr um daginn. Hvernig er hægt að samræma þessa hegðun? Hopp af spenningi yfir nýjum lóðum og sjúklegt ofát? Ég varð bara smávegis rugluð í kollinum þegar ég reyndi að hugsa um þetta hegðunarferli. Og hreinlega komst ekki að neinni niðurstöðu. Svona er þetta bara; maður er á fljúgandi siglingu svo bara plúpp! og maður er dottinn um koll. Engin sérstök ástæða. Og þið kunnið predikunina sem hér kemur... bara dusta af sér og halda ótrauð áfram. Allir með þetta á hreinu? Gott.
Fór í kynningu í nýju ræktina í morgun, lyfti af gríðarlegum krafti og vann úr ofátsfráhvörfum með því að búa til skotheldan matseðil og versla inn í hann. Svo verð ég bara að takast á við þessa viku eins vel og ég get. Ég er enn í stresskasti fyrir þetta helvítis próf og líður voðalega illa inni í mér akkúrat núna. Einhvern vegin er hjartað ekki með í lífstílnum þó svo að líkaminn sé á sjálfstýringu og gerir það sem gera þarf sjálfkrafa. Ég ætla bara að treysta á þennan autopilot inni í mér á meðan heilinn undirbýr markaðsáætlanir og viðskiptalíkön. Svo held ég að það sé tími til að stoppa aðeins og skoða hvað ég tel að sé mikilvægt í lífinu. "Hvernig er það nú Svava Rán mín," ætla ég að spyrja sjálfa mig. "Ertu ekki með 85 kíló, og svo 80 og svo 75 í sigtinu? Sambó lakkrís, Ben og Jerry og að vera illt inni í sér hafa sjaldan skilað þeim árangri. Er ekki kominn tími til að stika í áttina AÐ markmiðunum, frekar en FRÁ þeim?"
2 ummæli:
Langaði bara að segja að mér finnst þú endalaust dugleg og þó að þú stígir eitt feilspor þá er ég nokkuð viss um að restin af sporunum voru á beinu brautinni.
Gangi þér svakalega vel í próflestrinum og svo í prófinu sjálfu.
Þú ert mögnuð og getur allt, mundu það!
Er á sama fallbretti..var klárlega komin í kolvetnafráhvörf og vann ríkulega á þeim...ekki góð líðan á eftir..kroppurinn út blásin og linur..Svo on going process...rísa upp úr öskustónni, og dr..llast af stað. Jú, að stika í átt að markmiðum frekar en frá þeim er betra og gefur okkur gloríus sigurfíling...Health is not a condition of matter, but of mind“
Skrifa ummæli