|
Láki og bestu amma og afi í heimi við Almannagjá |
Mikið rosalega sem það er alltaf gott að koma heim. Ísland er eitthvað svo hressandi. Og að fá að vera þar þegar sólin skín og allir svo kátir og hressir eru hrein forréttindi. Dave hefur ekki komið þangað síðan um áramót 2007 þannig að það var yndislegt að sjá landið aðeins í gegnum hans augu og svo hafði ég voðalega gott af því að gera aðeins meira úr ferðinni en ég geri vanalega þegar ég kem heim og negli mig bara fasta í Þolló. Gullfoss og Geysir slógu náttúrulega alveg í gegn og Þingvellir eru núna með velskan gæðastimpil. Sundlaugin í Þolló er svo að mati Lúkasar Þorláks það sem næst kemst himnaríki á jörðu. Sjálf er ég að sjálfsögðu hæstánægð með aðstöðuna þar en fékk örlítinn hroll í veskið mitt við að borga £7.57 fyrir einn stakan ræktartíma. Ég lét semsé einn stakan tíma nægja. Hljóp úti einu sinni og synti 200 metra, og með túrista göngutúrum var það allt og sumt af líkamsrækt þessa viku.
|
Í annarri skálminni á 125 kg buxum |
Það var bara svo margt annað að gera. Hitta fjölskylduna, fara í skoðunarferðir, út að borða, í sushi partý, í svartfugl og gítarpartý, miðbæjarrölt, listinn er endalaus. Svo náttúrulega að halda fyrirlesturinn minn. Mér fannst þetta takast með ágætum, tæplega sextíu konur komu að hlusta á mig tala og ég vona að flestar hafi þær haft gaman ef ekki gagn af. Ég tók þann pól í hæðina að lýsa bara ferlinu mínu frekar en að vera að prédika eitthvað mínar skoðanir og ég held að það hafi tekist ágætlega. Lokaatriðið kannski það sem mér fannst skemmtilegast, enda er svona "visual" atriði alltaf mjög áhrifarík. Sjálfri finnst mér þetta ótrúlegt að ég geti í alvörunni farið öll í eina skálmina, ég sem á svo mikið eftir.
Hvað lífstílinn varðar er ég bæði ánægð og ekki ánægð. Þegar ég kom heim síðasta sumar var ég með svakaleg plön um fráhald og líkamsrækt sem svo stóðust ekki og ég varð reið út í sjálfa mig fyrir að bregðast planinu. Í þetta sinni var ég ekkert búin að spá eða ákveða, lagði bara af stað. Keypti ekkert nammi á flugvelli, öfugt við það sem ég gerði síðast. Fattaði það ekki einu sinni sem ég var ægilega ánægð með. Datt svo aðeins í nammipoka sem var til þarna heima en ekkert í magni sem ég hafði áhyggjur af. Hreyfði mig alls ekki nógu mikið og það sem verra var drakk ekki einn dropa af vatni (hugsa með sér og ég á Íslandi!). Datt svo út úr prógrammi með uppröðun næringarefna en magn var alltaf innan skynsamlegra marka. Drakk svo ársframleiðslu Ítalíu af léttvíni. Borðaði nánast bara fisk og skelfisk allan tímann. Fékk svo reyndar líka ís með dýfu. Þannig að það voru góðir punktar og það voru slæmir.
|
Svaka fín mynd af Dave við Öxará. |
Ég hef tekið það á mig að lifa samkvæmt meðalhófsreglunni. Það þýðir að einu sinni eða þrisvar á ári fer ég í frí sem þetta. Ég tel að það sé mun skynsamlegri ákvörðun fyrir mig að fara bara í frí, gera mitt besta til að leggjast ekki algerlega í rugl en gera líka mitt besta til að leggjast ekki í samviskubit yfir nokkrum óskynsamlegum ákvörðunum. Þetta er lífið mitt. Í fyrramálið vakna ég klukkan 6:30 fæ mér vatn og hleyp svo 5 kílómetra. Svo baka ég bananamúffur og bý til eggjahvítuommilettu og rútínan mín hefst upp á nýtt. Ég jafnvel tek annan sykurlausan mánuð til að koma öllu aftur í 100 % svíng. Og þetta er það sem ég tel að "venjulegt" fólk geri. Eins og Ólína mín segir; "maður tekur skrens öðruhvoru og svo passar maður sig bara smávegis meira í dálítinn tíma þar á eftir." Eins og talað út úr mínu.
3 ummæli:
Algjörleg og þá er bara að njóta þess :-)
Kiss og knús og takk fyrir síðast.
Ólína
Þetta finnst mér einmitt rétt hugarfar. Maður bara leyfir sér að njóta lífsins og svo þegar maður kemst í rútínu aftur eru þessi örfáu syndakíló fljót að detta af aftur. Það væri öllu verra ef maður dytti í eitthvað volæði og gæfist upp og endaði í algjöru rugli.
Ég hef einmitt komist að því að ég er ekki kapphlaupi þegar það kemur að því að missa þessi kg sem eftir eru. Ef það bætist eitthvað á tíma þá bara stoppar maður, snýr við, fer á beinu brautina og tekur þessi kg af. Ég þarf ekkert að verða 75 kg fyrir næstu jól þó að mig langi til þess. Ef það gerist næsta sumar eða þarnæsta þá er það alveg í góðu. Svo lengi sem ég rokka ekki mikið meira en 2-3 kg og kem mér aftur í lag þá er ég sátt.
Vildi að ég hefði getað hlustað á fyrirlesturinn þinn, hann hefur eflaust verið alveg frábær.
SJá þig stelpa þarna í skálminni... sjáðu óraveginn sem þú ert komin!!! Ohhh þú ert svo mikill snillingur.
Who gives a **** um smá skrens... manstu Móra frænda?? http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Roggu_Nagla/mori-fraendi
Já einmitt, hann er bannaður
En mér leikur forvitni á að heyra meira um þennan fyrirlestur?? Hvar? Hvernig? Af hverju?
Skrifa ummæli