þriðjudagur, 24. maí 2011

Ég man þegar ég kom fyrst inn í likamsræktarstöð. Ég var nánast lömuð af skelfingu þetta var mér svo framandi. Þar inni var fólk sem talaði nánast annað tungumál en ég, leit að sjálfsögðu allt öðruvísi út en ég og  hafði allt aðrar skoðanir á hvað væri mikilvægt í lífinu. Ég er náttúrulega svo sjálfhverf að ég fékk hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að þetta ljósabekkjabrúna eróbikklið myndi annað hvort benda á mig og hlæja eða benda á mig með fyrirlitningu; "hlussa! út með ´ana!" En svo er bara þannig að þegar í rækt er komið eru voða fáir eitthvað að spá í hinum í kringum sig, maður er mestmegnis með hugann við sig sjálfan.

Ein af búbótunum við vinnuna mina var ræktin sem henni fylgdi. Það var svo þægilegt að hafa hana svona rétt við vinnustaðinn og svo var hún frekar ódýr. Svo þegar vinnutíminn breyttist breyttust allar mínar forsendur, ég komst ekki á morgnana og þar með datt aðeins botninn úr þessu hjá mér. Ræktin er pínkulítil og það var orðið bölvað vesen að berjast um lóðin við alla hina sem lyfta eftir vinnu. Svo um daginn kom tilkynningin að það ætti að loka. Og ég þurfti því að gera það sem ég hefði átt að gera fyrir nokkru síðan; finna mér stóra rækt með öllum græjum.

Ég fann aðeins fyrir þessu "fyrsta skipti" stressi við að fara í nýju ræktina. Hún er stór og þar eru fullt af svona mjóum stelpum sem virðast ferðast saman í flissandi hópum. Sjálfsagt allar á leið í zumba eða spinning eða eitthvað svoleiðis. En ég er alltaf ein eitthvað að dútla í þessu. Ég stika að sjálfsögðu beint að lóðunum. Þar eru bara strákar. Flestir mjóir strákar að reyna að byggja sig upp og einn og einn svona vöðvabolti. Ég uppsker eitt og eitt augntillit en að mestu leyti gera þeir bara það sama og ég; horfa á sjálfa sig í speglinum. En þetta er líka smá stressandi. Við lyftingar getur maður ekki falið síg aftast í hópnum,  það er ekkert skjól. Ég er enginn byrjandi og ég veit hvað ég þarf að gera til að ná árangri og ég er tilbúin til að stíga aðeins út úr "comfort zone" til að ná þeim árangri. Og ég stikaði mér því út stað, náði mér í lóð og byrjaði að lyfta. Og gleymi öllu í kringum mig, bara ég og vöðvar og sviti. Mér datt svo í hug þegar ég var á leiðinni heim að það að spóka mig á meðal strákanna er ekkert mál. Það er kannski kominn tími til að ég prófi að fara í zumba með mjóu stelpunum; það væri sko að fara út úr comfort zone.

Engin ummæli: