fimmtudagur, 26. maí 2011

BURPEE!
Og ég guggnaði á ræktinni í dag. Æfing dagsins innihélt meðal annars stökk mikið sem kallast froskahopp eða "burpees" á engilsaxnesku. Maður hoppar í einskonar armbeygju stellingu á gólfið og stekkur svo upp (hæð sína í fullum herklæðum) og svo þaðan aftur í gólfhopp. Og svo framvegis. Ég hreinlega gat ekki hugsað mér að gera þetta fyrir framan fólk. Ég sá fyrir mér bolinn flettast upp fyrir yfirmaga við hvert stökk og hvernig hvítt spikið myndi þá vella yfir joggingbuxnastrenginn. Þetta voru ljótar hugsanir um sjálfa mig. En suma daga er maður með ljótuna og verður bara að vinna með því. Eitthvað var ég líka lítil inni í mér í morgun og ákvað að ég myndi bara gera settið hér heima. Þurfti aðeins að aðlaga eina eða tvær æfinganna og endaði á að hanga öfug á borðstofuborðinu í tilraun til að búa til smith vél en að öðru leyti fór þetta ágætlega fram. Ég held líka að það hafi smávegis angrað mig tilhugsunin um að kannski gæti ég ekki hoppað svona. Ég er ekki byggð til að skoppa um. Hvað ef ég stæði ein og óvarin á miðju gólfi fyrir framan hundrað manns og reyndi að hoppa og ég hreinlega myndi ekki takast á loft? Það þótti mér vandræðaleg tilhugsun. En svo enn og aftur kom ég sjálfri mér á óvart og það eina sem stoppaði mig í að hoppa enn hærra var lofthæðin í litla húsinu mínu. Mikið var þetta ánægjulegt. Hoppsasa.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við köllum þetta Súper froska í minni sveit. Þeir voru einmitt inni í æfingaplani dagsins. 3x12 stykki og maður er móður og másandi í korter á eftir :)
Kv, Kristín - leynilegur aðdáandi.

Inga Lilý sagði...

Ég HATA burpees með hita þúsunda sóla!! Þetta fer algerlega með bakið á mér og maður er eins og hálfviti að gera þetta.

Hef þó gert þá nokkra á stéttinni fyrir utan húsið mitt og Japanirnir sem ganga fram hjá sýna ótrúlega lítil viðbrögð (enda ekki margir á röltinu um 5.30/6).

En þetta fer samt svo hrikalega illa með mjóbakið á mér að ég sleppi þeim helst. Þú ert hetja að klára æfinguna heima. Ef ég væri í ræktinni (sem hefur reyndar ekki gerst í 1.5 ár) og hefði hætt í miðri æfingu hefði ég ALDREI kláraða hana heima í stofu.

Alltaf sama hetjan!

ragganagli sagði...

Gott hjá þér að sleppa ekki æfingunni heldur hendast í kvikindið hjemme på. Þessi hringur er dauði og djöfull en svínvirkar í bræðslu smjörs. RESPECT fyrir metnaðinn!!!

murta sagði...

Halló Kristín! :)

Ég ætla að gera þetta í ræktinni næst, er búin að finna bol sem hreyfist ekki :D

Og Ragga, ef þú setur mér verkefni þá klára ég það! ;)