fimmtudagur, 26. maí 2011

Ég ætla að gefsast upp á leitinni að hollum sykri. Nýjasta tilraunastarfsemin fólst í "palm sugar" eða sykri unnum úr kókóspálmatré. Þessi sykur er mest notaður í asíska matargerð og nú er ég svo lukkuleg að Wrexham verður stanslaust menningarlegri og nú höfum við hér sérverslun með asískar matvörur. Það er af  sem áður var þegar ég fyrst kom hingað og hér var ekki einu sinni kaffihús. En það er önnur saga. Ég var i fyrstu ægilega spennt og hélt að ég hefði fundið hér heilaga graleikinn. Sykurinn er nánast ekkert unninn og minnir því meira á hrásykur eða púðursykur. Og ég held að hér fari næsta tískumatvaran. Kókóssykur er seldur bæði hreinn og svo er lika hægt að kaupa hann blandaðan saman við hvítan sykur. Það er það fyrsta sem maður þarf að vara sig á. Hitt er svo að hreinn kókóssykur er betri næringarfræðilega séð en venjulegur sykur. Maður fær stein- og snefilefni úr honum. Svo er hann líka rosalega bragðgóður, dýpt og tónar sem ekki fást í venjulegum sykri og hann er "low glycemic" sem á að þýða að hann fer hægt út í blóðstreymi og skapar ekki svona ris í blóðsykri. Að auki er framleiðslan á honum lífvænleg (sustainable), sem er gott fyrir umhverfið. En engu að síður þá er kókóssykur að upplagi mest súkrósi og glúkósi,  sem sagt sama uppbygging og hvítur sykur. Ég á dós af honum og hef í hyggju að prófa mig áfram með nokkrar uppskriftir um helgina en það má sko aldrei missa sjónir á að sykur er sykur er sykur er sykur. Og það er allt sem þarf að vita.

Engin ummæli: