föstudagur, 13. maí 2011
En skrýtið? Síðasti pistill virðist hafa bara horfið? Ekki er hægt að segja það sama um mig. Íslensku kílóin haggast enn ekki enda hafa þau núna breyst í stresskíló. Þrátt fyrir að hafa farið beint aftur í holla lífshætti virðist það ekki hafa nein áhrif núna. Þetta eru viðbrögð sem líkami minn virðist sýna við svona miklu álagi; hann rígheldur í pund, únsur og kíló. Ég er meira segja of stressuð til að hafa áhyggjur af þessu. Þá er nú mikið sagt, vanalega væri ég kjökrandi af hugarangist en ég bara get ekki bætt þessu við í áhyggjupottinn minn. Reyndar þegar ég hugsa um það þá er engin ástæða fyrir mig til að hafa áhyggjur af nýju Svövu Rán. Hún plumar sig alveg virðist vera. Vanalega myndi nú gamla Svava Rán taka yfir og segja að vegna taugastrekkings væri nú alveg upplagt að fá sér súkkulaðihúðaðar rúsínur, Sambó lakkrís og Rískubba og að vegna tímaþrengdar væri alveg útilokað að komast í rækt. Namminu var ég búin að gleyma og ég er alltaf búin að hlaupa eða lyfta áður en ég man að ég hef ekki tíma. Ég gleymdi líka að hrósa sjálfri mér fyrir þetta. Og það gengur ekki upp. Þannig að ég ætla að taka núna fjórar mínútur í að óska sjálfri mér til hamingju með velgengnina, minna sjálfa mig á að ég er ekki vitleysingur, strjúka mjaðmabein og brosa í spegilinn. Og reyna að slaka aðeins á.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli