sunnudagur, 12. ágúst 2012

Eftir laugardagshlaupið með hlaupahópnum mínum hef ég ákveðið að ég hef engan áhuga á langhlaupum. Ég er öll fyrir hraðann. Ég hljóp með Angie sem heldur vanalega um 5 mínútna hraða á kílómetrann. Hún hægði snarplega á sér til að ég gæti haldið í við hana og ég hljóp eins hratt og bústnir leggirnir gátu borið mig. 6 og hálf mínúta á kílómetrann og ég komst bara fjóra og gubbaði þegar við kláruðum en engu að síður þá var þetta besta og skemmtilegasta hlaup sem ég man eftir í langan tíma. Ég var öll uppveðruð og víruð þegar ég kom heim og er núna búin að ákveða æfingaplan sem miðar að hraðaaukningu frekar en vegalengd. Eftir að hafa fylgst með Ólympíuleikunum af miklum áhuga núna hef ég líka ákveðið að mér finnast spretthlaupararnir hafa til að bera þá hreystilegu líkamsbyggingu sem ég myndi vilja hvað helst líkjast. Hraustlegar og vænar.

"WREXHAAAM, WREXHAM, WREXHAM!!"
Ég var svo uppveðruð að ég ákvað að halda uppi íþróttaandanum og bauð Dave mínum á fyrsta fótboltaleik þessarar vertíðar, heimaleikur Wrexham á móti Woking. Ég hef ekki farið á The Racecourse Ground, heimavöll Wrexham AFC, síðan 2003 þegar ég horfði á Wrexham tapa 3-1 fyrir Macclesfield. Þá var Wrexham á uppleið, voru við það að komast upp úr annarri deild og allt lék í lyndi. Síðan ég sá þann leik þá hefur liðið fallið niður um þrjár deildir og spilar núna fyrir utan deild í Blue Square Premier og er nánast gjaldþrota. Það er þessvegna ekki skrýtið að hjátrúafullur knattspyrnuaðdáandinn Dave hafi sett mig í vallarbann. En eitthvað lá vel á honum í gær og hann samþykkti að ég tæki hann með á völlunn. Og í glampandi sólskini fylgdumst við, ásamt tæplega 5000 öðrum gallhörðum Wrexham aðdáendum, liðinu vinna sinn fyrsta leik á vertíðinni. Sjálf fylgist ég lítið með fótboltanum sjálfum, til þess er ég of upptekin við að syngja hástöfum. "Who are you? Who are you?" hrópum við að fámennum hópi stuðningsmanna Woking og bendum á þau í leiðinni. "OOOOOOoooooo you´re shit aahhhhhhhh" æpum við þegar markmaðurinn reynir að sparka boltanum frá markinu. "Three one to the sheepshaggers, three one the sheepshaggers" syngjum við með ánægju þegar við skorum og núum þannig ensku liðinu því enn meira um nasir að ekki nóg sé með að þeir séu að tapa heldur eru þeir að tapa fyrir Walesverjum. Fyrir utan allan hinn sönginn. Ég var hás þegar leik lauk.

Við fórum svo til mágkonu og svila og fengum grillmat og bjór. Ég drakk of mikið, var eitthvað kærulaus og í stuði og greiddi fyrir það með heilu kílói upp á við í morgun. En ef satt skal segja þá er mér eiginlega sama, ég skemmti mér of vel til að hafa áhyggjur af smáatriðum. Verra er að í dag er ég búin að halda kæruleysinu áfram, bauð strákunum mínum á Frankie & Bennie´s eftir keilu og nagaði þar heilan grís og súkkulaðiís í eftirrétt.

En ég hef engar áhyggjur. Ég er búin að sitja við í dag að gera markmiðin mín skýr fyrir sjálfri mér, og ég veit hvað ég ætla að gera næst. Skilmerkileg, mælanleg og innan seilingar. Mikið skemmtilegt framundan.

Engin ummæli: