Ég er mikil listakona. Og þá á ég ekki við olíu á striga og batík heldur það að ég skrifa niður lista. Um eiginlega allt sem ég geri. Ég geri óskalista, og "að gera" lista, innkaupalista, gjafalista, æfingalista. Í strætó á leiðinni heim úr vinnunni geri ég lista yfir það sem ég þarf að gera þegar ég kem heim. Í vinnunni geri ég lista yfir það sem ég þarf að gera yfir daginn, ég geri lista fyrir vikuna, fyrir mánuðinn, fyrir árið. Ég geri lista yfir föt sem mig langar í, yfir bækur sem ég ætla að lesa, kíló sem ég ætla að léttast um.
Ég held ekki að þetta sé merki um skipulag og stálaga. Ég held frekar að ég sé að reyna að koma einhverskonar skikki á flækjuna sem eru hugsanir og tilfinningar mínar. Ég er nefnilega búin að fatta að þegar um lógík er að ræða er ég með allt á hreinu. Vandamálið mitt er að ég leyfi oftast tilfinningum mínum að ráða yfir lógíkinni.
Þannig liggur það í augum uppi að það er lítil lógík í að fá sér súkkulaðistykki klukkan sex, rétt fyrir kvöldmat. Lógíkin segir mér að ég hafi valkost. Ég get valið að fá mér súkkulaðið og tekið svo afleiðingum þess. Afleiðingarnar eru samviskubit (það er alveg sama hvað ég reyni, ég get ekki borðað súkkulaði án þess að fá samviskubit, til þess er skömmin bara of djúpgróin í mig), ásamt því að vita að það að borða súkkulaði færir mig ekki nær markmiðinu mínu. Hinn valkosturinn er að sleppa súkkulaðinu. Það myndi þýða stolt og gleði yfir að ráða við langanir mínar, það myndi færa mig skrefi nær markmiðinu og færa með sér almenna vellíðan. Eini ókosturinn er væg tilfinning um að ég þurfi að takmarka mig eitthvað smávegis.
Lógíkin segir mér líka að það sé eðlilegt ástand að takmarka sig eitthvað smávegis. Þannig myndi ég helst kjósa að fara ekki í vinnu, en eyða frekar deginum á kaffihúsi, eða við lestur eða í ferðalög. Að mæta til vinnu skapar takmörkun á því lífi sem ég vil lifa. En ég veit að ef ég fer ekki til vinnu þá fæ ég ekki útborgað og ég myndi ekki geta gert neitt af því sem ég vil. Þannig kýs ég að mæta í vinnu. Á sama hátt á ég að geta hugsað með mér í hvert sinn sem ég kýs að takmarka matarval mitt við það sem er hollt og gott að afleiðingarnar af því vali eru það góðar að takmörkunin verður smávægileg í samanburði.
Þetta meikar allt svo mikinn sens að annað eins hefur bara sjaldan sést á prenti. En eins og ég sagði áður þá er ég ekki að efast um lógikina. Lógíkin vefst ekkert fyrir mér. Mitt vandamál er að ég er að éta tilfinningar mínar. Og þær ráða oftast yfir lógíkinni. Það er hola inni í mér sem ég er að reyna að fylla. Það er eitthvað inni í mér sem segir að ég sé ekki nógu klár, nógu fyndin, nógu sæt, nógu sniðug, nógu dugleg, nógu góð. Og eins vitlaust og það er, eins öfugsnúið og það er þá reyni ég að fylla upp í þess vöntun með því að borða.
En með því að gera lista og skipulag og strika út það sem ég er búin að gera kem ég smávegis skikki á tilfinningarnar inni í mér. Með því að strika út atriðin á listanum fylli ég í holuna mína. Og læt sjálfa mig vita að ég sé nógu góð. Að ég sé nóg. Og smásaman get ég látið lógíkina taka yfir.
Ég er líka alls ekki ein um að búa til lista. Uppáhalds "to do" listinn minn kemur frá engum öðrum en Johnny Cash; "...cough, pee, eat, not eat too much..." Kannski að ég sé að flækja hlutina of mikið?...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli