sunnudagur, 5. ágúst 2012

Í heila viku er ég búin að nostra við, næra og hlúa að súrdeigsbyrjunardeiginu mínu. Ég skipti á því, passaði að nota bara trésleif til að hræra í því, mældi hitastigið í húsinu, talaði fallega til þess, hugsaði til þess á meðan ég var í vinnunni, lagði í það alla mína ást. En allt kom fyrir ekki og ég náði ekki að kveikja líf í því. Á laugardagskvöld var ekkert í skálinni nema sorgleg hveitiklessa.

Á sama hátt hef ég lagt allt mitt í mataræðið þessa vikuna. Skrifaði upp matseðil, fylgdi honum af kostgæfni, vigtaði, taldi og mældi. Eldaði af áhuga, ástúð og innlifun, hugsaði og pældi. En allt kom fyrir ekki, ég var 93.3 kíló í morgun, sem er það sama og ég var síðasta sunnudag.

Séð aftan á pramma siglandi eftir Ponctysyllte Aquaduct
Ég gerði eins mikið og ég gat hvað líkamsrækt varðar, ég hljóp á þriðjudag og hitti hlaupahópinn minn á laugardagsmorgun og hljóp með þeim. Ég skemmti mér konunglega við það og ég var glöð og þakklát fyrir að hafa fundið þetta fólk til að deila ánægjunni við að hreyfa sig með þeim. Ég fór svo með strákana mína í ægilega fjallgöngu upp á Pontctysyllte Aquaduct. Það er hægt að ganga yfir hana meðfram skipaskurðinum og horfa yfir alla sveitina. Þetta var svakalega skemmtilegt og fallegt og aðeins lengra en strákarnir mínir eru vanir að fara þannig að ég var voðalega stolt af þeim. Við lentum svo í úrhellisdembu á leiðinni tilbaka og komum heim þannig að það var ekki þurr þráður á okkur. Ég lagði allt mitt, allt sem ég átti aflögu í að hreyfa mig þessa vikuna. Engu að síður þá hljóp ég hægt þegar ég hlóp og það var erfitt og ég þufti að taka á öllu mínu til að gera það sem ég gerði og ég get varla labbað núna fyrir sársauka í hnénu.

Og hvað er best að gera? Jú, ég ætla að setja í nýtt súrdeig, ég ætla að fara yfir hvað ég gerði og hverju ég get breytt til að reyna að kveikja líf í lögnum. Svo ætla ég að þétta aðeins matseðilinn og vigta aðeins meira og telja aðeins betur. Ég ætla líka að gera nýjar æfingar í þessari viku. Ég ætla að leyfa hnénu að jafna sig og gera því meira af vöðvaæfingum.

Ég er engin hveitiklessa neitt.

Engin ummæli: