mánudagur, 20. ágúst 2012

Að undanförnu hef ég verið að vinna hörðum höndum að því að breyta um hugsunarhátt. Ég er búin að vera að "gaintain" (vinna staðfastlega að því að viðhalda líkamsþyngd en þyngjast samt) núna í að verða eitt og hálft ár. Og ég stóð sjálfa mig að því að vera farin að trúa þvi að ég gæti bara ekki lést meira. Og ég held að ég hafi verið farin að haga mér í samræmi við það. "Ég stenst ekki brauð" "Ég má ekki eiga nammi inni í skáp þá ét ég það stjórnlaust" "'Eg hef enga stjórn á átinu" "Svona er ég bara" og þar fram eftir götunum voru hugsanir og setningar sem ég sagði við sjálfa mig og aðra. En svo rann upp fyrir mér ljós. Ég er ekki bara að reyna að breyta matnum sem ég borða og magninu af honum, heldur er ég að reyna að breyta grundvallartrú, skoðun og hegðan sem ég hef. Og ef ég TRÚI því ekki að ég geti NOKKURN tíman orðið grönn hversvegna í ósköpunum ætti það þá að gerast? "Sko!" get ég sagt. "I told you so!". Og þarf þá ekkert frekar að bera ábyrgð á ákvörðunum sem ég tek sem halda mér feitri. Það er heilmikið verkefni að breyta þessari trú minni en ég ætla að reyna.

Ég loka augunum og ég slétti úr öllum misfellunum á maganum og lærunum og upphandleggjum og höku. Ég sé fyrir mér hlaupara í stuttbuxum og topp og með sléttan maga. Ég splæsi svo hausnum á mér á þann kropp. Og ég ímynda mér að ég sé að hlaupa og hlaupa og hlaupa. Fimm og hálf mínúta kilómetrinn. Og ég ímynda mér hvernig mér kemur til með að líða þegar þetta er raunveruleikinn. Og ég lofa sjálfri mér að það að hlaupa í stuttbuxum og topp sé milljón sinnum betra en allt súkkulaði í heiminum. Það er engin ást, það er engin vellíðan, það eru engin verðlaun fólgin í því að éta sér til óbóta. Ég kem ekki til með að finna neitt svar við neinu við það að raða í mig kökum og sætmeti. Það er engin lausn í því að borða. Engin endapunktur, ekkert svar. Ef svo væri þá hefði ég fundið það úr þessu.



2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er að lesa You can be thin eftir Marisa Peer, sem fjallar nkl um þetta - feita sjálfskapaða hugarfarið og hvernig á að breyta því. Mögnuð bók (og ég sem les aldrei sjálfshjálparbækur)

kv. Þórdís

murta sagði...

Tjékk´á ´enni á kindle ;) takk, takk.