Hingað til hefur mér gengið illa að fá ætan fisk hérna. Það var eiginlega þannig komið að ég var hætt að reyna. Ég var búin að reyna allt, steikja úr raspi og lauk, drekkja honum í rótsterkum sósum til að fela ýldubragðið, krydda og marinera en allt fyrir ekki. Enda get ég svarið að ég sá ekki betur en ég væri að mestu leyti til að kaupa blokk sem ég hafði sjálf ormatínt og beinhreinsað í Meitlinum sumarið ´88. Ekki til manneldis að mínu mati. Þannig að ég nennti þessu bara ekki lengur og allur minn fiskur er bara túnfiskur úr dós.
En eitthvað sagði mér að ég ætti að prófa. Í fyrsta lagi þá er gæðastjórnunin innan M&S ein hin þéttasta af matvælaframleiðendum í Bretlandi og í öðru lagi þá var luðran samlandi minn. Íslenskur fiskur. Þetta hlaut að virka.
Til að hafa vaðið fyrir neðan mig ákvað ég samt að búa til netta bragðblöndu til að fela óbragð svona just in case.
1 laukur, smátt saxaður
250 g sveppir, sneiddir
1 skvetta af ólívuoliu (sprey)
Steikt á pönnu þar til glært og gullið og tilbúið.
4 ýsubitar raðað í eldfast mót
1 egg
2 msk fitulaus grísk jógurt
30 g gruyere, fínt rifinn (eða hvaða annar harður ostur eins og parmesan eða grana padano eða aged gouda)
allt hrært saman þartil mjúkt
smyrja svo egg-jógurtblöndunni á fiskinn, krydda með salti, pipar, smá steinselju og hella svo sveppa-laukblöndunni yfir. Baka inni í ofni í hálftíma við 190 gráður.
Bera fram með grænu salati og blómkáls-hvítlauksmús. (bita niður blómkálshaus, setja i skál og hylja með plasti, inn í örbylgju í rúmar fimm mínútur, sletta msk af fitulausum sýrðum rjóma og smá hvítlaukssalti og mauka með töfrasprota)
Fiskurinn brást ekki, ferskur og hvítur næstum jafngóður og nýveiddur fiskurinn sem pabbi kom með með sér síðast. Eldamennskan var í raun óþarfi, smávegis af grænmeti hefði verið fínt, en uppskriftin var líka alveg hrikalega góð og þess virði að prófa.
Eftirréttur; frosin bláber. Namm.
Eftirréttur; frosin bláber. Namm.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli