laugardagur, 8. júní 2013

Nei! Bara allt í einu kominn föstudagur aftur og vikan var rétt að byrja! Þetta hlýtur að hafa eitthvað að gera með að eldast svona. Dagarnir langir en árin þjóta hjá hraðar og hraðar. En svona er það nú víst bara, öll brjóst hneigjast í suðurátt fyrr eða síðar og ekki þýðir að gráta það. Það forðar því nú samt ekki að ég er alltaf, að því að mér finnst, kúguppgefin.

Ég er ekki alveg viss hvort það sé bara aldurinn sem veldur þessu eða hvort það sé þetta stanslausa samviskubit sem ég er með og hef haft síðan 2003. Það var árið sem Lúkas fæddist og ég fékk minnimáttarkenndina. Mér finnst ég nefnilega vera glatað foreldri. Hann er aldrei í réttum fötum, borðar vitlausan mat, spilar tölvuleiki og horfir á sjónvarp út í eitt. Ég hef nefnilega ekki tíma til að ala hann upp. Ég er alltaf í vinnunni, eða þreytt eða að taka til eða læra eða elda. Og ég er með stanslausa minnimáttarkennd gagnvart öllum öðrum foreldrum sem eflaust leyfa börnunum sínum ekki að drekka kók og láta þau fara í fimleika og þylja svo upp margföldunartöfluna með þeim á meðan að þau leika létta þroskaleiki. Og ég er með samviskubit yfir að hafa hvorki tíma né orku til að sinna honum svona vel.

Þegar ég byrjaði í lífstílnum 2009 var ég í vinnu þar sem ég gat notið morgunmatarins með Láka, labbað svo með hann í skólann og hafði svo tíma til að rækta mig, læra og elda og plana áður en ég mætti í vinnu klukkan tvö. Þetta var fullkomið. Og alger forréttindi að hafa tækifæri til að gera þetta. Þegar ég svo byrjaði hjá Lloyds var þar rækt á svæðinu sem ég hafði auðveldan aðganga að. Og ég var ekki í ábyrgðarstöðu þannig að ég fór heim áhyggjulaus. Núna aftur á móti finn ég að allar mínar prédikanir um að "maður býr bara til tíma til að mæta í ræktina" hljóma hálf hrokafullar. Jú, ég get mætt í ræktina en það er þá til að bæta á samviskubitið sem ég er nú þegar að berjast við hvað son minn varðar.

Ég verð víst að éta ofan í mig margar af þessum hrokafullu yfirlýsingum frá 2009 og 2010.

En það þýðir samt ekki að ég sé hætt að trúa sjálfri mér, það þýðir bara að ég hef lært lexíu hér og að ég hef lært örlitla auðmýkt. Og það er öllum hollt.

Ég get hjólað og ég geri það. Hvað frekari líkamsrækt varðar þá hef ég bara ekki tíma akkúrat núna. Ekki til að gera það nógu skipulega til að það hafi eitthvað að segja. Ég hef því ekki um annað að velja en að einbeita mér algerlega að mataræðinu.

Með því að einbeita mér að mataræðinu í viku léttist ég um 1.3 kíló. En eftir að hafa skráð þau samviskulega í 222 vikur verð ég að viðurkenna að þau hafa orðið litla merkingu fyrir mér. Þetta eru kíló sem ég er búin að sjá koma og fara hundraðmilljónsinnum. Ég ætla þessvegna ekki að telja þau neitt frekar upp. En um leið og ég passa aftur í gallabuxurnar númer 14 skal ég æpa upp yfir mig.

Og núna ætla ég að eyða gæðatíma með Láka og reyna að kenna honum að hjóla.

Engin ummæli: