mánudagur, 3. júní 2013

Það er allt að verða vitlaust í vinnunni. Ég er að sameina tvö teymi, flytja á milli hæða með allskonar mismunandi tölvukerfi, reyna að læra á handvömmina, ásamt því að kljást við sérlega erfiða samstarfskonu. Þetta náði alltsaman hápunkti í dag þegar tölvukerfið brást þegar ég minnst mátti við því. Ég hafði tekið með mér hafragraut og ávexti, ásamt eggjaköku og möndlum. Nýja reglan segir engin unnin matvara. En um 10leytið, eftir að sýna bara rósemd og yfirvegun út á við á meðan að inni í mér hljóp ég hjálparvana og veinandi um í hringi í angistar-og kvíðakasti gat ég ekkert gert annað en að troða hverri kexkökunni á eftir annarri til að viðhalda róseminni út á við.

Ég sá án þess að þurfa mikið að pæla í því að ég var að gera mistök númer eitt. Það er að leyfa tilfinningu að ráða för frekar en að treysta á innri sannfæringu. Innri sannfæring stjórnast af skynsemi sem segir að það að velja heilbrigðari kostinn, að hreyfa mig og sýna jafnaðargeð á raunastundu sé það sem best sé að gera  og það sem veitir langtímahamingju. Tilfinning er ákafari og hömlulausari og segir mér að fullnægja hvaða hvötum sem er núna, núna, núna! Og sér í lagi að það að troða í mig kexi láti mér líða betur. Auðvitað líður mér betur við að troða í mig kexi. Í svona umþaðbil fjórar sekúndur. Og svo er það búið og ekkert stendur eftir en samviskubit.  Og það lækna ég með að troða í mig kexi. Bráðsniðugt alveg hreint.

En sólin skein og þegar ég gat ekki unnið meir rauk ég heim á hjólinu, fór lengri leiðina og náði um átta kilómetrum í blakandi sól og blíðu. Og gaf sjálfri mér svo engan tíma til að hugsa, náði bara í ketilbjöllurnar og fór út í garð að sveifla. Þar með stóð ég við helminginn af loforðum dagsins og þyki bara nokkuð kát með það.

Það var líka ágætis áminning þetta að láta ekki tilfinningar stjórna sér. Ég þarf bara að komast aftur í æfingu með það rétt eins og ég þarf að komast aftur í æfingu með að sveifla bjöllum.

Harðsperrur allan hringinn á morgun.

Engin ummæli: