sunnudagur, 19. apríl 2009


Og þá eru Harpa og Arnar farin heim. Ég er auðvitað voðalega fegin og glöð að þau séu komin heim heil á húfi og allt það en verð að viðurkenna að ég er leið að missa þau og smávegis öfundsjúk líka. Við fórum nú ekki oft að heimsækja þau en mér finnst það nú bara ekki vera aðalmálið; það var alltaf möguleikinn að fara til þeirra sem nú er ekki í boði. Og svo var líka voða gott að geta hringt í Hörpu og spjallað án þess að spá í kostnað. Allavega við fórum og kvöddum þau á föstudaginn langa og það er það. Til þess að svekkja þau og ykkur hin á rokrassgatinu Íslandi þá settum við sólstólana og borðið út í garð í gær og borðuðum kvöldmatinn úti í gær í sól og blíðu og höfum í hyggju að gera slíkt hið sama í dag.
Mig vantaði ljósaperu í gær og sagði Dave að þetta væri alveg sérstök tegund af ljósaperu sem aðeins fengist í Dunelm Mill. Hann trúði mér og ég fékk því að dúlla mér í einni af mínum uppáhaldsbúðum. Og fann þar sílikón bökunarform. Ég hafði nú heyrt af þessu og hvernig þau gera fitulausan bakstur mögulegan þar sem sílikónið gerir það að verkum að deigið festist ekki við formið. Ég svona slétt trúði þessu en ákvað að prófa. Og þetta bara svínvirkar. Ég bakaði í morgun alveg svakalegar Cappucino-Muffins. Kremið ofan á er reyndar smjörkrem en það er frídagur í dag þannig að ég ætla ekkert að spá mikið í það. Og er núna farin út í garð. Það þarf aftur að slá grasið.

4 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Kökurnar líta sérlega vel út. Notarðu ekki einu sinni olíu í baksturinn? Ég hef mikinn áhuga á að læra meira um þessa baksturaðferð.

Harpa sagði...

Úff, það er nú meira skítaveðrið hérna. Við eigum ekki einu sinni nógu hlý föt. Svo rignir bara og rignir og rokið eftir því. Ég þori bara varla út......

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Harpa mín, þú verður bara að fjárfesta í pollagalla. Ég veit að slíkt telst óþarfi annars staðar en á Íslandi. Það er hins vegar tíska sem ég vil innleiða út um allan heim.

Hanna sagði...

bíddu bíddu Harpa og Arnar farin heim!! Ég hélt fyrst að þau væru farin heim eftir heimsókn til ykkar en svo les ég betur og sé að þau eru farin heim á frón!! Nú verð ég að fara að taka mig saman í andlitinu með samskiptin - djöfulzinz djöfull.