laugardagur, 6. mars 2004

Lúkas er 4 mánaða í dag. Það fer að líða að því að hann fái graut og svona ýmislegt annað og meira en bara mjólk. Ég berst á milli þess að óska að hann verði bara alltaf svona pínkulítill og svo að vilja sjá næstu þroskastigin, borða, sitja, skríða, standa, tala... mikið er þetta margslungið hlutverk, foreldrahlutverkið. Ég held að ég kvíði því dálítið að fara að vinna og hætta með hann á brjósti því þá er síðasti hlekkurinn sem bindur hann við mig, líkamlega, brostinn. Eftir allan þennan tíma sem ég bar hann um og hann óx inni í mér og svo núna heldur sú tenging í gegnum brjóstagjöfina, þá tími ég ekki einhvern vegin að sleppa þessari tengingu. Voða erfitt að útskýra. Á hinn bóginn verð ég svo voða fegin að fá líkama minn tilbaka til að menga að eigin vild (hér er ég að sjálfsögðu að tala um eðalefnið rauðvín og sígarettur). Ætli að ég reyni bara ekki að ala hann upp eins og mamma og pabbi ólu mig upp, það er alveg sama þó ég sé þúsundir kílómetra í burtu, naflastrengurinn er þarna enn, óslitinn. Það er bara dramatíkin í dag, ha?

Engin ummæli: