föstudagur, 19. mars 2004

Ég var alveg við það að pakka niður og koma heim í gærkveldi. Ég var einmana og leið og orðin vonlaus um að fá nokkra vinnu, og Lúkas var svo fyndinn að ég fór að vola yfir því að pabbi sæji ekki afastrákinn sinn. Við ræddum málin ég og einasti eini og þegar ég var búin að segja upphátt hvernig mér leið, þá merkilegt nokk leið mér einhvern vegin betur. Mér finnst reyndar alltaf jafn leiðinlegt að segja Dave ef mér leiðist eða líður illa því hann vill meina að það sé honum að kenna. Ef það væri ekki fyrir hann þá ég hamingjusöm á Íslandi. Þegar hann segir þetta þá sljákkar í mér. Ég var nú ekkert sérstaklega ánægð á Íslandi síðast þegar ég gáði. Annað hvort í rottuholum í Reykjavík, eða alein í hundsrassi og vissi ekkert hvað ég vildi eða hvert ég stefndi. Síminn hringdi svo í morgun og ég boðuð í spennandi starfsviðtal næsta föstudag hjá British Legions. Svona skín alltaf lukkusól hjá mér, ég er alveg að verða svartsýn en þá gerist eitthvað og bjartsýnisröndin mín byrjar að glóa upp á nýtt.

Við fórum svo í sundtíma í morgun. Lúkas er ekkert að venjast þessu. Hann grenjar hálfan tímann og ég er orðin hálftvístigandi yfir þessu. Mér líður eins og slæmri móður að vera að pína hann svona, en mér liði örugglega enn verr ef ég færi ekki, maður vill jú gera allt til að gera þau gáfuð og falleg! Annars er það verra hvað ég fer illa á þessu. Ég stend sjálfa mig að því að hugsa að hann sé sá eini sem grenji, hvurlsags sé þetta eiginlega, en barnið á að vera mest og best! hann er ekki orðinn 5 mánaða og ég vil strax að hann "sigri". hvernig verð ég eiginlega þegar hann er eldri? Heimtandi að hann fá i aðalhlutverkið í skólaleikritinu, látandi hann lesa alfræaði orðabækur svo hann vinni í Trivial, senda hann í balllett, sund, söng, gítar, leirkeragerð...greyið litla.

Svo er síðasti Sex and the City i kvöld. Ég er nú bara spennt að vita hvernig þetta endar allt saman. Ég ætla ekki að segja meira um það, ég vil ekki skemma neitt fyrir þeim sem eru rétt að byrja seríuna núna.

Engin ummæli: