mánudagur, 28. mars 2011

Það flökti aðeins litla OCD hjartað mitt í morgun. Ég er stjóri í vikunni sem þýðir að ég get ekki haupið á morgnana. Eftir viku þar sem ég hef bara skekið skanka í léttum pilates voru vöðvar og sinar farnir að grátbiðja um smá átök. Ekki gat ég sleppt hlaupunum. Þannig að það var um ekkert annað að ræða en að skella sér í hlaupagallann eftir vinnu og rjúka út. Ég var svo sannfærð um að ég gæti ekki hlaupið eftir vinnu að ég nánast gafst upp áður en ég byrjaði. Svona er ég föst í rútinu og venjum að ég hef ákveðið að ég sé A-manneskja sem sé ófær um stórræði eftir klukkan fimm og á erfitt með að hugsa út fyrir þann ramma. En þegar ég kom heim í kvöld var enn glampandi sólskin úti, örlítil hressandi gola og úrvalsaðstæður fyrir hlaup. Ég fann að þráin til að hreyfa mig var þreytunni yfirsterkari og lagði þess vegna af stað. Þetta var bara gott. Það er ólíkt skemmtilegra að hlaupa í sólskini en í morgunmistrinu og svo það sem kom mér helst á óvart var hvað mér fannst gaman að hafa fólk í kringum mig. Ég byrjaði að keppa í huganum við bíla og fólk, heimtaði af sjálfri mér að ég færi fram úr þessum og hinum sem ég mætti, reyndi að spretta í takt við bíla. Tók einn ægilegan sprett þegar ég var rétt að komast heim og mætti gömlum kalli á sama tíma. Hægði á mér og hann æpti á mig; "You can´t stop now!" þannig að ég þorði ekki öðru en að spítta aftur í. Bara skemmtilegt. Og ég ætla að reyna að vera slakari héðan í frá, reyna að vera sveigjanlegri. Maður verður að prófa áður en maður dæmir.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Þú ert auðvitað snillingur. Ég hélt einmitt að ég gæti verið hetja og vaknað í morgun og farið út að skokka (fór sko að sofa um 23 leytið í gær eftir ca 39 tíma vöku) en ákvað svo að stundum er mikilvægara að sofa en að skokka.

Vandamálið mitt er þó ekki bara að ég er 100% A manneskja, heldur eru götur Tokyo svo fáránlega mannamargar að það er ömurlega leiðinlegt að hlaupa seinni partinn, þar sem þú ert í hindrunarhlaupi allan tímann (og þrátt fyrir hæð mína og smæð þeirra þá get ég ekki stokkið yfir þessar hindranir).

Þannig að fyrsta mál á dagskrá í dag er að standa sig í mataræðinu, næsta mál er að halda áfram með æfingar fyrir hálfmaraþon í fyrramálið.

Elska að lesa bloggið þitt, þú ert alger snilldarpenni og ofurdugleg kona.

Og smá update að lokum, erum sem sagt komin aftur heim til Tokyo og allt er að komast í rútínu aftur. Þurfum að kaupa vatn handa stelpunum að drekka en drekkum kranavatnið sjálf (enda er levelið enn undir hættumörkum í UK, hættumörkin í JP eru bara svo þröng). Stefnum á að vera bara áfram, svo lengi sem ekkert annað gerist. Takk enn og aftur fyrir umhyggjuna, ég brosi enn við að hugsa til póstsins sem ég fékk frá þér.

murta sagði...

Þetta snýst allt um að finna það sem hentar manni best; ef manni finnst leiðinlegt er ólíklegt að maður haldi eitthvað út. Sé þig reyndar fyrir mér núna í höfrungarhlaupi yfir grunlausa Japani þar sem þeir eru á leið heim úr vinnu :)

Gott að fá fréttir og það er víst aldrei of varlega farið þegar það kemur að börnum manns.