mánudagur, 21. mars 2011
Það er dálítið gaman til þess að hugsa í allri þessari umræðu um hollustu að Ítalir búa til besta rjómaís í heimi og borða að miklu leyti til einföld kolvetni. Frakkar nota smjör sem aðaluppistöðuna í sína matargerð, Spánverjar borða sína aðalmáltíð um og upp úr tíu á kvöldin og grísk fjölskylda notar upp undir 5 lítra af olífuolíu á viku. Á sama tíma hafa Ameríkanar fundið upp Diet, Light, Low Fat, Low Carb og SugarFree. Án þess að gera á því vísindalega úttekt er ég ekki í efa um hvaða þjóð kemur verst út þegar á að skoða heilsu-og holdarfar. Og út úr þessu hefur fæðst ofurtrú mín á að það eigi að borða góðan mat. Svo lengi sem maður borðar alvöru mat, rjómi og smjör innifalið, og borðar hann í eðlilegum skammti, þá er allt leyfilegt. Ég trúi því staðfastlega að ég geti þjálfað sjálfa mig til að haga mér eins og eðlileg manneskja. Að ég geti sleppt nammikvöldi einu sinni og einu sinni án þess að ég leyfi sjálfri mér að missa af allri skynsemishegðun í viku á eftir. Ég trúi því staðfastlega að ég geti læknað sjálfa mig með skynsemi og smá vinnu. Ég vil nefnilega ekki útiloka neinn mat. Ég trúi því staðfastlega að góður matur, gott hráefni eigi rétt á sér og það sama gildir hvort sem maður er að tala um grænmeti, smjör, quinoa, spínat, rjóma, sólblómafræ eða súkkulaði. Ég myndi frekar borða smjör en fitulaust jógúrt sem hefur verið pumpað fullt af sykri, sætuefni og gerfiefnum til að bæta upp fyrir fitumissinn. Ef mig langar í rjómakrem og súkkulaðiköku þá trúi ég því staðfastlega að það sé það sem ég eigi að fá mér. Að ég eigi að búa hana til úr alvöru súkkulaði og feitum rjóma og að ég eigi að deila henni af ástúð með sem flestum með mér og að ég eigi bara að fá mér eina sneið. Ég trúi staðfastlega á að það eigi að borða alvöru mat og að maður eigi að gera það að ástúð, og að maður eigi að njóta hvers einasta bita. Og ég trúi því staðfastlega að einn daginn verði ég þessi manneskja sem getur fengið sér eina sneið af þessari ótrúlegu súkkulaðiköku og látið staðar numið þar. Ég ætla þessvegna að halda áfram að þjálfa sjálfa mig í að njóta hvers einasta bita af croissant úr hreinu smjördeigi, af ostaköku úr hreinum rjómaosti, af gæðasúkkulaði og að geta svo þakkað fyrir mig og ýtt disknum frá mér. Mér finnst sjálfsagt að borða eins holla fæðu og mögulegt er, mér finnst sjálfsagt að sleppa sykri eins og hægt er. Mér líður einfaldlega betur líkamlega þegar ég sleppi sykri. Og fyrir mig er leikurinn líka gerður með það í huga að spara mér kalóríur. En megintilgangurinn hjá mér er að hætta að vera fíkill, ég vil læra að umgangast mat eins og eðlilegan hlut, ekki fá skitu fyrir hjartað ef það er minnst á rjóma eða sykur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli