þriðjudagur, 22. mars 2011
Við tókum að okkur smávegis verkefni í vinnunni sem hefur gengið framar björtustu vonum. Ef ég má segja sjálf frá þá er ég nokkuð stolt að hafa tekið þátt og að allt hafi gengið þetta vel, sér í lagi þar sem ég sá um nokkuð stóran hluta framkvæmdarinnar. Yfirmönnum mínum þótti reyndar slíkt hið sama og úthlutuðu teyminu einhverjum 300 pundum úr svona "well done" sjóði sem bankinn býr yfir. Ekki má rugla honum við milljóna punda sjóðinn sem þeir úthluta sjálfum sér í bónus með reglulegu millibili. En það er önnur saga. Þegar við fréttum þetta héldum við að við myndum bara fá 20 pund hvert, sem er skítur og ekkert á miðað við það sem við eigum skilið en samt, við ákváðum að það væri skárra en blaut tuska í andlitið. En svo var okkur sagt að það ætti að eyða peningunum í "treats" fyrir teymið. Einn daginn myndum við bara fá fullt af súkkulaði og kexi og kökum og einhverju gúmmilaði til að gera daginn í vinnunni skemmtilegan. Ef ég á að segja satt og rétt frá þá varð ég alveg fokreið. Í fyrsta lagi yfir niðurlægjandi upphæðinni sem mér finnst eiginlega verri en ekki neitt, sér í lagi þegar hugsað er til hvað yfirmenn bankans hafa í laun. Aðallega þó yfir hversu fáránlegt þetta er. Nammi og kökur handa fullorðnu fólki í verðlaun fyrir vel unnin störf? Ég spurði hvort ég gæti fengið minn skerf í peningum þar sem að ég myndi ekki taka þátt í að borða sætindi, fyrir mér væru það ekki verðlaun. Ef það væri ekki hægt hvort það væri gert ráð fyrir að kaupa grænmeti, húmmús, ávexti og hafrakex handa mér. Það á víst að taka það til umhugsunar. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Er ég leiðindapúki að vilja ekki taka þátt í sætindaáti í vinnunni? Eða er það rétt hjá mér að það er út í hött að eyða 300 pundum í kex?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. En mér dettur í hug hvort þarna sem um menningarmun að ræða sem við mörlandarnair skiljum ekki alveg. Þú manst....við erum illa uppalinn.!!
sem lesist sé
Veistu að mér finnst það bara ansi töff ef þú bendir á ruglið - því um leið og bent er á ruglið er fyrsta skrefið til breytinga tekið. Og ruglið er að nota "allan" þennan pening í einföld kolvetni þegar hægt væri etv. að nota hann í einfalt keilukvöld eða einfalt nudd/dekur eða e-ð álíka sem gefur vellíðan án eftirkasta. Svo mættirðu líka alveg benda á að það hefði kannski verið nærri lagi að hverjum og einum hefði verið úthlutað 300 pundum, svona ef litið er á málið í stærra samhengi :-)
Takk Hanna min fyrir þetta, ég vona að það að ég hafi bent á þetta verði tekið til greina.
Skrifa ummæli