Sæt kartöflu falafel og bókin góða. |
fimmtudagur, 3. mars 2011
Neyðin kennir naktri konu að spinna, eða í það minnsta að fara í fataverslun og máta kjól. Ég mátaði í dag einn í númeri 14. Nú á ég til inni í skáp skyrtu sem ég get enn notað, hún er smá stór en vel nothæf sem er í stærð 20 frá þessu sama fyrirtæki. Svo á ég peysu í 18, nýji ponsukjóllinn er 16 og nú þessi í 14. Okei, hann er svona sígaunastíll einhver og á örugglega að flaksast meira á mjórri stelpu en hann gerir á mér, en samt; 14!!! Ég keypti hann ekki, ég held mest megnis af því að ég var svo hissa að ég hafði ekki rænu á því (smávegis af því að ég á engan pjéning) en ætla að fara aftur og prófa til að sjá hvort þetta hafi verið einhver mistök. Ég, í 14, detti mér allar dauðar og allt það.
Ég var nú samt ekki svo hissa að ég hefði ekki rænu á smá tilraunastarfsemi í eldhúsinu, Falafel búið til úr sætum kartöflum. Falafel felur í sér margar af mínum skemmtilegustu minningum frá árinu sem ég bjó í Belgíu; ég og Andres vinur minn enduðum flest ævintýrin okkar á Mama´s Garden um 6 leytið á morgnana og fengum okkur falafel, pitubrauð og líter af hvítlaukssósu. Þar gátum við borðað og hlegið og látið renna af okkur áður en við fórum á fyrirlestur í háskólanum. Good times. Hvað um það. Hann er aftur orðinn hálftómlegur hjá mér matarskápurinn og því góð ráð dýr, ég þurfti að búa til kvöldmat og hádegismat úr því sem ég fann. Ég byrjaði á að búa til uppkýlda eggjapönnuköku í kvöldmat. 2 egg, 5 sólþurrkaðir tómatar, 3 mtsk brown rice flour (hrisgrjónahveiti) tsk lyftiduft og salt og pipar og svo allt þeytt saman með handþeytara. Svo steikt á pönnu eins og lummur. Ég tók 2 pönnsur, setti svo bakaðar baunir ofan á, smá fitulausan rjómaost og salat með. Hey prestó! Kvöldmatur. Hádegismaturinn er svo aðeins fínni. Hugmyndin kemur frá grænmetisveitingastað hér í Bretlandi sem heitir Leon. Mig langar einmitt alveg hrikalega í matreiðslubók frá kokknum þeirra. Ég bakaði eina sæta kartöflu þar til hún var mjúk. Tók svo úr hýðinu og setti í skál. Bætti þar út í 3 maukuðum hvítlauksgeirum, tsk cumin (ekki kúmen), tsk paprika, 1/2 tks cayenne, 1/4 tsk kanill, salt, pipar, 1/3 bolli hrísgrjónahveiti, nokkrir dropar af sítrónusafa og mauka allt saman. Mynda svo nokkrar litlar bollur, velta upp úr sesamfræjum og setja í kæli til að jafna sig í smá stund. Ég setti í frystinn í 20 mínútur. Svo bakaði ég þær við 200 gráður í 25 mínútur. Og maður er komin með sæt kartöflu falafel. Ég skelli eggjapönnsunum, salati og falafel í tupperware og helli yfir smá hvítlaukssósu sem ég bý til úr grískri jógúrt á morgun og fer með í vinnuna. Er nema von að ég sé alltaf svona kát? Og í ofanálag er ég búin að fullkomna frappucino uppskriftina mína. Betri en Starbucks.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli