föstudagur, 4. mars 2011

Hingað til hafa stærstu brjóst í Evrópu farið lítið í taugarnar á mér. Ég hef aldrei verið með bakverki eða verki í öxlum eða nein líkamleg óþægindi eins og fer oft um aðrar brjóstgóðar konur. Mér hefur aldrei þótt mikið mál að vera með fangið fullt af brjóstum. Ég hef einhvern vegin alltaf passað við sjálfa mig. Stór brjóst, stórt allt. Ég fór reyndar einu sinni til lýtalæknis til að kanna minnkun en það var bara vegna þess ég var að vona að brjóstaminnkun myndi láta mig líta út fyrir að vera mjórri. Læknirinn ráðlagði mér að léttast um 30 kíló og koma svo aftur. Tilgangslaus ferð það. Nei, ég hef alltaf verið hæst ánægð með stelpurnar. Það eina er hvað það er dýrt að kaupa brjóstahaldara. Og íþróttabrjóstahaldarar eru hrikalega dýrir. Þeir einu sem virka fyrir mig eru með höggdeyfum, ég er ekki að djóka, þeir heita Shock Absorber, og kosta formúgu. Sem stendur á ég þrenna. Tveir voru keyptir fyrir 30 kílóum síðan og eru orðnir heldur haldlausir. Einn passar enn en er farinn að missa aðeins tökin þegar ég hleyp. Og ég lenti í því í morgun að óska þess í fyrsta sinn á ævinni að ég væri með lítil brjóst. Það er allsekki hlaupið að því að hlaupa með þau í fanginu.

Engin ummæli: