þriðjudagur, 8. mars 2011

Þegar ég fór út að hlaupa á sunnudagsmorgun var ég þvengmjó. Hreinlega tálguð. Ég sá ekkert nema leggi og grönn læri, mjaðmabein, viðbein, granna úlnliði og kinnbein. Í dag veg ég 800 tonn, rorra um í spiki, er ekkert nema endalausar undirhökur og belgur og er mest hissa á að ég geti labbað, ég ætti frekar að rúlla um. Hvað hefur breyst síðan á sunnudag? Sex þúsund rjómabollur og eitt kíló. Það er það sem hefur breyst. Þegar ég var búin að stússast í eldhúsinu á sunnudagsmorgun sá ég skyndilega í hendi mér að ef ég bakaði ekki nokkrar bollur myndi ég sjálfsagt ekki geta talist sem Íslendingur lengur. Nei, það yrði örugglega tekið af mér vegabréfið. Það gengi náttúrulega ekki upp. Þannig að með þjóðernisstoltið brennandi í hjartanu skellti ég í eina bollu uppskrift og raulaði um leið Ísland ögrum skorið fyrir sjálfa mig. Ég sá í hendi mér að ég þyrfti að kenna Láka allt um bolludag og að ég væri að bregðast honum sem íslenskur uppalandi ef ég bakaði ekki bollur. Og svona gat ég sannfært sjálfa mig um að ég væri ekki bara að gera gott heldur lífsnauðsyn að baka bollur. Og réð svo að sjálfsögðu ekki neitt við neitt og missti mig algerlega í átinu. Það skiptir svo sem ekki miklu máli, ég fæ mér vanalega smávegis vitleysu á sunnudögum þannig að þó þetta hafi verið aðeins of mikið magn þá var þetta líka planað misstig. En mér datt samt í hug í vanlíðaninni sem hefur ekki yfirgefið mig síðan á sunnudagskvöld hvort ég sé í alvörunni að lifa lífstílinn af nægilegum sannfæringarkrafti þegar ég geri svona vitleysur. Ég vil gera róttækar breytingar á, ekki bara viðhorfum mínu til þess hvernig ég borða, heldur líka á matnum sjálfum. Þeir eiga það sameiginlegt sem hafa breytt um lífstíl og viðhaldið merkjanlegu fitutapi yfir langan tíma að hafa gert róttækar breytingar á mataræði. Og ég velti fyrir mér hvernig manneskja ég vil vera. Vil ég vera manneskja sem mokar og mokar í holuna á virkum dögum til þess eins að moka upp úr henni aftur um helgar? Eða vil ég vera manneskja sem notar af alvöru hollari efni og lífshætti og gefur dópið alveg upp á bátinn? Er það möguleiki fyrir mig? Mér hefur tekist að ná þetta langt með skipulagðri dópneyslu, er það þá ekki bara fínt? Er ég að gera nóg? Er ég að lifa lífi mínu af alvöru, einlægri sannfæringu?

1 ummæli:

ragganagli sagði...

Samviskubit og sjálfsniðurrif er neikvæð orka og á að jarða med det samme.

Veistu það Svava mín, að þetta kemur fyrir ALLA... alveg sama hversu lengi þeir hafa viðhaldið árangri. Að missa sig í eitthvað sem manni þykir gott heitir að vera mannlegur og er partur af prógrammet.
Svo er maður bara aðeins meira á bremsunni helgina eftir... no big deal.
Þú ættir að sjá undirritaða þegar súkkulaðikaka með rjóma er borin á borð.... herregud!!