sunnudagur, 6. mars 2011

Prótein pönnukökkur
Sunnudagsmorgnar eru algerlega minn uppáhaldstími. Þá sest ég niður og skipulegg vikumatseðilinn og reyni að plana aðeins þær aðstæður sem ég verð í og gera mér grein fyrir bestu viðbrögðunum. Svo fer ég inn í eldhús og geri eins mikið af matseðlinum sem hægt er að gera fyrirfram til að allt þetta sé litið mál yfir vikuna. Ég hlusta á Radio Wales í leiðinni af því að á sunnudagsmorgnum er Dewi Griffiths með þáttinn String of Pearls sem spilar tónlist frá tímabilinu 1920 til 1955, tónlist sem amma og langamma hlustuðu á. Yndisleg tónlist sem kemur mér í húsmóðurgír. Ég grilla nokkrar kjúklingarbringur með mismunandi kryddlögum til að eiga tilbúnar í salat í hádeginu, ég sker jafnvel niður og frysti grænmeti til að nota í rétti á kvöldin. En það sem ég geri aðallega er morgunmaturinn. Ég er alltaf með hann alveg tilbúinn. Þannig baka ég ferðafæru haframúffurnar mínar tilbúnar fyrir alla vikuna og set í frysti og þá geri ég líka eggjabökur eða eggjapönnsur. Að undanförnu er ég búin að vera að gera tilraunir með pönnuköku sem sameinar allt sem þarf í morgunmat; prótein, flókin kolvetni og ávexti.

8 Eggjahvítur þeyttar aðeins
240 grömm haframjöl
2 "scoop" (60 g) prótein duft (þessu má sleppa, en þá er að sjálfsögðu ekki sama prótein magnið í pönnsunum. Ég nota scitec whey prótein með ýmiskonar bragði og scitec er besta próteinið sem ég hef prófað.)
1 tsk kanill
2 tsk lyftiduft
120 g kotasæla
1 mtsk kókósolía (eða matarolía)
1 tsk vanilludropar (eða kaffidropar)
undanrenna þar til degið er orðið eins og þykkt vöffludeig

Epla-blá-og hindberja "krums"
Allt hrært saman og bakað á pönnu eins og lummur á báðum hliðum. Ég sker svo niður nokkur epli og set í pott með matskeið af sweet freedom ávaxta"hunangi" og tsk af vatni og slurk af kanil. Ég set stundum ber út í líka eins og hér sjást bláber og hindber. Þetta læt ég svo malla til í dágóða stund þar til er orðið mjúkt og sætt en þó enn smá klumpótt. Kæli svo niður og set í dós inn í ísskáp og á til heimagerða, sykurlausa "sultu" sem dugar í viku. Ég ætti auðvitað að setja gæsalappir á sykurlausa líka því auðvitað eru ávextir bara sykur. Skárri samt en unninn sykur. Þetta kalla ég eplakrumsið mitt og það má að sjálfsögðu nota út á allt, hafragraut, jógúrt, hafrakexkökur og þar eftir götunum.

So bara borð´ana!
Ég á þannig orðið 15 prótein pönnukökur og sultu sem dugar mér vikuna. Ég set 3 í litla poka og inn í frysti og tek svo einn poka með mér í vinnu ásamt slummu af sultunni minni. Maula þetta svo við skrifborðið með kaffibolla. Og fæ prótein, flókin kolvetni, góða fitu, ávexti og fullvissuna um að ég sé að gera mér gott. Ef maður skipuleggur sig er nokkuð ljóst að það er mikið auðveldara að fylgja hverri þeirri áætlun sem maður hefur sett sér. Megrunarkúrar virka, það er fólk sem virkar ekki. En ef maður eyðir smá tíma í að láta þetta virka fyrir sig eru möguleikarnir á að maður haldi sér við efnið 100% líklegri.

Engin ummæli: