fimmtudagur, 24. mars 2011
Uppskriftasíðan mín minnti mig á nokkra góða rétti sem ég hafði eiginlega gleymt og endurvakti núna í vikunni. Sérstaklega grænmetisbakan mín, ég var búin að steingleyma hvað hún er bæði góð og hentug. Ég gerði hana reyndar aðeins einfaldari núna, lét nægja að raspa niður eina gulrót, mauka einn hvítlauksgeira, búta niður hálfa rauða papriku og setja svo þrjár lúkur af spínati á pönnu í nokkrar mínútur og hellti því svo út í hræru af 200 g af kotasælu, 4 egg, matskeið af hrísgrjónahveiti og góða gommu af parmesan osti. Ég bætti svo líka við hálfri teskeið af dijon sinnepi. Salt og pipar, baka við 190 gráður þar til gullið og hamingjan er þín. Ég skar niður í sneiðar og er búin að vera að borða þetta ýmist sem morgun-eða hádegismat í vikunni. Ekkert slor það. En merkilegra þótti mér ný uppskrift að quinoa-salati. Ég hafði séð uppskrift sem blandaði rjómaosti við quinoa og náttlega vaaaaarð að prófa. Það er mjög mikilvægt að skola aðeins af quinoanu því að það getur verið biturt bragð af ytra laginu ef ekki er skolað i burt. Sumsé skola hálfan bolla af korninu og setja svo í einn bolla af vatni og sjóða með smá salti eða jafnvel með grænmetisteningi þar til kornið hefur sogið i sig allt vatn. Alveg eins og maður sýður grjón. Láta kólna aðeins. Skera fínt niður hálfa lauk, nokkra sveppi og hvítlauksgeira og svissa aðeins á pönnu í smá olívuolíu. Hræra það svo við quinoað ásamt 1/4 teskeið dijon sinnepi og matskeið af rjómaosti (fitumagn fer eftir smekk og kalóríueign hvers og eins). Ég setti þetta svo saman við grillaða kjúklingabringu sem ég átti til inni í ísskáp og lagði svo á hvað annað en spínatbeð. Þetta var aldeilis hádegismatur til að hrópa húrra yfir. Ég ætla að prófa að setja túnfisk út í blönduna næst, get ímyndað mér eintóma hamingju þar líka. Svo er ég búin að vera með hálfgert æði fyrir rósakáli að undanförnu. Það er sko ekki bara fyrir jólin. Ég hreinsaði og skar til helminga nokkuð af rósakáli og setti i ofndisk. Dreifði svo yfir ólífuolíu, dropum af balsamic og örfáum dropum af hunangi. Pipraði líka. Bakaði svo inni í ofni í svona hálftíma. Setti svo út í kúskús með smá rjómaosti og grilluðum kjúlla. Voðalega gott og að sjálfsögðu má bera rósakálið fram heitt með nánast hverju sem er. Ég er líka alltaf að verða stoltari af gulrótarmorgunverðarkökunni minni, eftir því sem þef-og lyktarksyn verður betra með minnkandi kvefi finnst mér kakan bara verða betri og betri. Ég er að hugsa um að prófa næst að minnka hveitimagn niður í nánast ekki neitt og auka hafrana. Fara bara alla leið i að skapa morgunverðinn sem ég lagði af stað með að búa til. Og að mínu mati geta meiri hafrar bara verið af hinu góða.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli