föstudagur, 18. september 2015

Gamechanger

Sumarið var yfirfullt af skemmtilegheitum. London, Reykjavík,  Barcelona, Berlin og Brighton. Endalaust stuð, og mikið af mat og enn meira af drykk. En nu slutter festen eins og maðurinn sagði og mál að linni.

Ég vóg 110 kíló á sunnudaginn síðasta. Það er nær því að vera feitasta ég en að vera mjóasta ég. Er það nokkuð hægt? Mér finnst ekki. Ég stend mig að allskonar fitubolluhegðun sem mér líkar illa; gera grín að sjálfri mér, forðast myndavélar, hafa áhyggjur af hvort stólar beri mig, forðast verslanir sem ég veit að selja föt í smærri stærðum, toga í peysuna til að fela bumbu...og þar fram eftir götunum. Ég þoli þetta ekki, þetta er allt eitthvað sem ég taldi af alvöru að ég hafði skilið eftir í reyk. 

Skiptir ekki máli, það eru þrír mánuðir til jóla og ekkert stórvægilegt planað utan vinnuferða og Dave er enn á full swing í sínum lífstíl og ekkert sem stöðvar mig í að taka smá rassíu núna. Eigum við að segja að þessi 10 kíló sem skilja á milli þess sem ég sé sem venjulega og vellíðandi og að vera hlussa verði farin um jól? Ég held það. Snýst þetta ekki allt um að halda áfram, byrja aftur, gefast ekki upp? Hversu vandræðalegt eða frústrerandi svo sem það er að endalaust segja sama hlutinn aftur og aftur.

Ég fann líka gamechanger um daginn. Ég er ástríðukokkur, og það er fátt sem veitir mér eins fölskvalausa gleði og að stússast í eldhúsinu. Það er eitthvað töfrum líkast við hvernig hlutir breytast úr einu í annað; mjólk í skyr, hveiti í brauð. Ég keypti mér spiralizer, lítið tæki sem sker grænmeti í örmjóa strimla. Þannig bar ég á borð í gærkveldi kalkúna bolognese með kúrbítsspaghetti. 425 hitaeiningar í sneisafullri skál með parmiggiano. Og rosalega gott. Ég hlakka til í kvöld, þá ætla ég að spírala sætar kartöflur og mixa einhvernveginn inn í kókoskarrí eitthvað. 

Neikvætt reinforcement virkar ekki á mig. Þannig er tilgangslaust fyrir mig að skoða hlussumyndir af mér. Þá verð ég bara sorgmædd og vil borða til að róa mig niður. En að skapa gleði, gleði í lífinu virkar sem tæki fyrir mig. Og það veitir mér gleði að raspa niður grænmeti. Eigum við ekki bara að rúlla með það?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hlakka til að fylgjast með þér. Alltaf gaman að lesa bloggið þitt og það eru svo margir í þínum sporum.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel Svava! Þú ert alveg með'idda. Raspar niður 10 kg á no time :)