föstudagur, 15. maí 2015

Röddin í eyðimörkinni

Ég hef ekki verið ég sjálf að undanförnu. Ég er rosalega hress gella vanalega, jákvæð og bjartsýn og að mestu leyti hamingjusöm. En eitthvað hefur greinilega verið að plaga mig að undanförnu því þegar ég lít tilbaka finnst mér eins og að það heyrist afskaplega lítið í þessari jákvæðu, bjartsýnu rödd af því að reiða röddin yfirgnæfir allt annað. Svona eins og stjórnmálamaður í kappræðum hrópa ég bara hærra og hærra án þess að hafa svo sem neitt sérlega uppbyggilegt til málanna að leggja. 

Ég er bara að reyna að koma einhverju sensi á heiminn sem hefur skyndilega snúist á hvolf hjá mér. En í staðinn fyrir að vera glöð og þakklát fyrir þetta tækifæri að rannsaka heiminn út frá nýju sjónarhorni varð ég hrædd og reið. Og tók þann pól í hæðina að ég þyrfti að sannfæra alla um að við búum við misrétti og hatur og hamfarir og mér fannst ég þurfa að afsaka og bera í bætifláka fyrir allt sem ég gerði, eða gerði ekki. En ég þarf ekkert að sannfæra neinn um að þetta sé erfitt. Það vita það allir. Ég þarf heldur ekki að sannfæra neinn um að upplýsingarnar séu ruglandi og að maður viti ekki dag frá degi hvað "megi" og hvað "megi ekki" borða. Við erum öll jafn ringluð yfir því. Ég þarf heldur ekki að sannfæra neinn um hversu mikla vinnu ég legg í heilsuna. Ég veit það sjálf.  Málið er að maður þarf bara að afsaka sig ef maður skammast sín. Og ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir nokkurn skapaðan hlut. 

Ég er búin að blogga í langan tíma. Ég hef alltaf reynt að vera hrein og sönn og ímynda mér að ég sé að halda dagbók og að það sé enginn að lesa. Ég er kannski stundum of hreinskilin. En ég get heldur ekki neitað því að það er fólk sem les og að flestir sem lesa gera það vegna þess að ég var einu sinni "eftir" mynd. Og mér finnst leiðinlegt til þess að hugsa að ég sé hætt að veita hvatningu eða gefa hugmyndir eða hreinlega bara vera skemmtileg. En ég get heldur ekki bara hætt að skrifa eftir öll þessi ár. Það má vera að áherslan breytist aðeins.  

Mig langar ekki til að vera reiða röddin sem þrumar um réttindi feitra. Ég á ekkert að þurfa þess. Ég vil vera röddin sem talar um jafnvægi og sátt, um forvitni og uppgötvanir og frelsi og ást. Ég vil vera röddin sem segir að þetta verði allt í lagi. Ég vil vera röddin sem segir sannleikann, en ég vil líka vera röddin sem gefur von, ekki sú sem drepur hana niður. 

3 ummæli:

Unknown sagði...

Ég varð bara að kommenta hjá þér, ég les bloggið þitt reglulega og kann svo sannarlega að meta hreinskilnina. Ég stend sjálf í þessum sporum að vera alltaf að leita að jafnvæginu. Maður á góða spretti og svo ekki jafn góða.
En aftur að blogginu þínu, það er alveg frábært og oft líður mér eins og ég sé að lesa mínar eigin pælingar. Takk kærlega fyrir mig :)

Nafnlaus sagði...

Hæ Svava,
Langði bara að skilja eftir comment því ég hef lesið bloggið þitt lengi og les það ekki af því að þú sért "eftir" mynd. Ég les það því þú skrifar frábærar hugleiðingar, og sýnir mér að það séu fleiri í þessari baráttu og með þessar hugsanir en bara ég :)
Áfram þú!

murta sagði...

Takk fyrir báðar, ég met þessa mikils :)