Dave minn fór til læknis um daginn. Hann er með slæmt magasár og er núna farin að fá allskonar skemmtilegar meltingartruflanir. Kom heim hálf traumtíseraður eftir pot í alla enda og eftir að fengið að vita að hann er ef til vill með coeliac (glúten óþol) og að læknirinn mælti eindregið með að hann taki mataræðið alvarlega í gegn. Eins niðurlútur og hann var gat ég ekki annað en uppveðrast yfir þessum fréttum. Ég gæti upplifað nýjabrumið í gegnum hann! Lögleg megrun! Sett upp plan um hitaeiningar sparaðar yfir daginn og vikuna, sett upp skrá um þyngd og hæð, framvarpað áætluðu þyngdartapi, búið til matseðil, verið peppari og gúrú og stjórnað hreyfingarplani. Þvílik lukka yfir mér! Já, og honum auðvitað.
Hugsaði málið aðeins og ákvað að stinga upp á að hann myndi kaupa sér fitbit, úrið sem mælir hitaeiningar inn og út, skref tekin yfir daginn og mælir svefnmynstur. Mér fannst að svona tölfræðinördadót myndi helst höfða til hans til að halda honum við efnið. Og það var eins og ég vissi, hann varð ægilega spenntur yfir að fá nýtt "gadget" og rauk til að kaupa tækið. Síðan bað hann mig um að slaka á. Ég væri búin að ganga í gegnum mitt og að hann þyrfti að fá að gera þetta allt á sínum forsendum. Og ég skil hann vel, ég held að það sé ekki hægt að byrja á punktinum sem ég er stödd á núna. Það þarf hver og einn að skrifa sína sögu, prófa þetta allt. Er ég ekki sú sem hvað hæst belja um að engin ein leið henti öllum?
Ég sit því núna og bít niður endajaxlana til að koma ekki með of miklar upplýsingar, eða vera með krítík eða bjóða ekki fram of mikla hjálp. Hann verður að fá að gera þetta sjálfur. Ég er bara að vona að gleðin og kátínan sem hann finnur fyrir núna smitist yfir í mig. Get ég sameinað þetta að borða af innsæi OG borðað eftir plani? Það er svo gaman að hafa plan....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli