fimmtudagur, 28. maí 2015

Af síðasta sjens

Dave minn skemmtir sér konunglega í nördamegruninni sinni. Hann telur hitaeiningar og skref og skrásetur af miklum móð í algorytma og lógarytma og kökuriti (namm kökur...) og línuriti og hvaða excel búnaði sem hann kemur höndum yfir. Rannsakar og analýserar og dregur ályktanir. En aðallega situr hann bara brosandi og dáist að tölfræðinni. 

Það lekur líka af honum lýsið. Og ég náttúrulega gat ekki annað en hrifist með. Kannski að ég byrji bara að telja hitaeiningar líka? Ég geri það hvort eð er fyrir kvöldmatinn sem ég elda til að gera prósessinn auðveldari fyrir hann, ætti ég ekki bara að byrja að skrásetja allt líka? Ég hefði nú svo sem ekkert á mótii því að léttast um nokkur kíló áður en við förum til Spánar í ágúst. Og ég hafði varla sleppt hugsuninni áður en ég var komin út í kaupfélag, búin að kaupa hálfan líter af cookie dough Ben & Jerry´s rjómaís og búin að troða allri dósinni í mig. Svo öflug er "síðasta kvöldmáltíðar" hugsunin í mér. Bara tilhugsunin um að reyna að hafa örlítila heftingu á hitaeiningum yfir daginn og ég geri tafarlaust uppreisn og borða þangað til mér verður illt. Þetta er eiginlega alveg merkilegt. Ég get líka hugsað þetta þannig að hefði ég ekki gælt ástúðlega við megrunarhugsunina hefði ég sparað mér átta milljón hitaeiningar. Ég hefði aldrei borðað ísinn ef þessi hugsun hefði ekki komið upp. Það finnst mér dálítið merkileg pæling. Fyrir mig er megrun einfaldlega skaðlegri en að bara sleppa henni. 

Þessvegna er líka svo afskaplega mikilvægt fyrir mig að ég nái að hætta öllu þessu daðri við megrunartilraunir eða lífstílsbreytingar eða hvað það á nú að kallast. Því fyrr sem ég bara byrja að treysta sjálfri mér fyrir sjálfri mér því betra. Ég er enginn fábjáni, ég á alveg að geta hugsað vel um sjálfa mig. 

Við erum öll ólík og það sem virkar fyrir Dave virkar bara ekki fyrir mig. Engu að síður, um leið og ég var búin að jafna mig aðeins ákvað ég að prófa að telja saman hvað ég er að borða mikið yfir daginn nú þegar ég er öll svona full af innsæji og sjálfsást. 

Týpískur dagur lítur einhvernvegin svona út:
Morgunmatur: Skyr með lófafylli af múslí og spíruð brauðsneið með vænni slettu af hnetusmjöri (350) 
Morgunsnarl: Epli og 15 gramma stykki af reyktum cheddar osti (150)
Hádegismatur: 2 harðsoðin egg, mtsk af paprikumauki, tvær sneiðar af súrdeigsbrauði og jógúrt með ástriðualdin (650)
Millisnarl: Heimagerð haframúffa og kaffi latte (300)
Kvöldmatur: Tveir bitar af úrbeinuðu, skinnlausu kjúklingalæri með salsasósu og ananas, 125 g af brúnum grjónum og gufusoðið pak choi kál (600)
Kvöldsnarl: Skinny latte og jógúrsletta (250)

Allt í allt eru þetta um 2100 hitaeiningar. Ég hjólaði 60 km þennan dag og var svöng áður en kom að matmálstímum. Samt. Samkvæmt fræðunum er þetta allt of mikið af hitaeiningum. Allt er þetta samt matur sem er stútfullur af næringarefnum, ekkert unnið eða sykrað eða óhollt á neinn hátt. Mér fannst þetta bara vera fínt þó ég verði að viðurkenna að mér finnst hitaeiningafjöldinn heldur mikill þegar ég týni þetta saman. Er ég að borða allt of mikið? Ef ég hefði borðað minna hefði ég verið svöng, liðið illa og endað í einhverri Ben og Jerry vitleysu. Eða er það kannski bara málið? Ég þarf bara að sætta mig við að borða minna en ég vil? Eða er kannski bara betra að hafa orku í 60 km hjólatúr, líða vel með hvað ég borða og segja bara fokk it, ég verð bara feit?

Engin ummæli: